FréttirSkrá á póstlista

30.10.2009

Ufsinn og þorskurinn gæða sér á gulldeplunni

Frystitogarinn Helga Maríu AK kom til hafnar í Reykjavík í gærmorgun en skipið var að veiðum við Suður- og Suðausturströndina frá því í byrjun þessa mánaðar. Að sögn Eiríks Ragnarssonar skipstjóra settu þrálátar brælur mestan svip á veiðiferðina og aflabrögðin voru með rólegra móti að hans sögn.

,,Við byrjuðum veiðiferðina á Reykjanesgrunninu og í Skerjadjúpinu en þar var aflinn frekar tregur. Við vorum á þessum slóðum í um þrjá daga en þá bárust fréttir af ágætri ufsaveiði á grunnunum fyrir austan og við héldum því þangað,“ segir Eiríkur og bætir því við að á þessum árstíma gefi ýsan sig einnig oft til í nágrenni Hvalbakshallsins sem og á grunnunum þar fyrir norðan, s.s. á Glettinganesflaki og Tangaflaki.

,,Því miður urðum við lítið varir við ýsu á þessum slóðum en ég held að hún gæti farið að sýna sig hvað úr hverju á þessum veiðisvæðum, sem og á Breiðdalsgrunninu,“ segir Eiríkur.

Að sögn Eiríks var ufsaveiðin fyrir austan ekkert sérstök og hann segir að svo virðist sem að millistóran ufsa vanti í veiðina.

,,Þetta var aðallega stór ufsi, sem við vorum að veiða, og sums staðar veiddist hann í bland við þorsk. Það er auðvelt að veiða þorskinn í Hvalbakshallinu og þegar komið er út á Þórsbanka þá er þar að finna mikið af stórum og góðum þorski. Vandinn er sem fyrr sá að veiða þorskinn í bland við aðrar tegundir,“ segir Eiríkur en hann segir að það hafi vakið athygli manna að mun meira virðist vera af uppsjávarfisktegundinni gulldeplu uppi á grunnunum að þessu sinni en menn hafi áður orðið varir við.

,,Stórufsinn virtist aðallega vera að éta gulldeplu og það sama má segja um þorskinn. Mér virðist sem að gulldeplan gangi nú í meira mæli upp á grunnin og hafi þar lengri viðveru en menn eiga að venjast. Ufsinn virðist fyrir vikið sækja í auknum mæli upp á grunnin og hann er a.m.k. síður að finna í djúpköntunum. Þetta er í samræmi við það, sem menn sem lengi hafa stundað veiðar á þessum miðum, hafa sagt mér. Það þýði ekkert að reyna ufsaveiðar í köntunum ef gulldeplan hefur gengið upp á grunnin. Annars virðist mér sem að ufsinn vilji helst éta gulldepluna uppi í sjó, því þar sem mest lóðaði á þennan fisk við botninn, þar var engan ufsa að finna.“

Nýjustu fréttir

Allar fréttir