FréttirSkrá á póstlista

28.10.2009

Öll stóru tækin komin í hús

Í morgun var lokið við að koma fyrir síðasta stóra tækinu í hinni nýju fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði. Þar var um að ræða gufuþurrkarann úr eldri verksmiðju félagsins á staðnum. Þurrkaranum, sem vegur hvorki meira né minna en 97 tonn, var ekið frá gömlu verksmiðjunni að þeirri nýju þar sem kranar voru notaðir til að hjálpa til við að koma honum inn á verksmiðjugólfið.

,,Það hefur verið mjög góður gangur í þessari vinnu og það er mikill áfangi að hafa komið öllum stóru tækjunum á sinn stað. Við höldum áætlun og nú er stefnan sú að ljúka við að loka byggingunni fyrir vikulokin,“ sagði Sveinbjörn Sigmundsson verksmiðjustjóri í samtali við heimasíðu HB Granda.

Að sögn Sveinbjörns er nú allt kapp lagt á að loka byggingunni en eftir á að ljúka við klæðingu á svokölluðum verksmiðjuturni en undir honum eru soðkjarnatækin sem alls eru hátt í 18 metrar á hæð.

,,Í framhaldinu verður svo hægt að hefja lagna- og rafmagnsvinnu og ljúka við að stilla tæki verksmiðjunnar af,“ segir Sveinbjörn en þess má geta að stefnt er að því að hefja rekstur í nýju verksmiðjunni í janúar á næsta ári.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir