FréttirSkrá á póstlista

20.10.2009

Stofnmælingar á síldinni og leit að gulldeplu

Tvö skipa HB Granda, Faxi RE og Lundey NS, munu á næstunni taka þátt í stofnmælingu og rannsóknum á íslenska síldarstofninum í samvinnu við Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegsráðuneytið. Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs félagsins, er gert ráð fyrir því að skipin fari í þetta verkefni um eða upp úr næstu helgi.

,,Þetta er hluti mjög viðamiklu verkefni en reiknað er með uppsjávarútgerðir leggi til 40 úthaldsdaga til rannsókna á stofninum. Nú eru fjögur skip að hefja þessar rannsóknir. Jóna Eðvalds SF, Ásgrímur Halldórsson SF, Súlan EA og Sighvatur Bjarnason VE fara fyrst af stað en þessi skip munu kanna útbreiðslu síldarinnar og sýkingarhlutfall,“ segir Vilhjálmur en að hans sögn er miðað við að hvert þessara skipa muni verja fjórum dögum til rannsóknanna. Í framhaldinu munu svo skip HB Granda og fleiri skip taka þátt í verkefninu.

Íslensk uppsjávarveiðiskip hafa flest verið bundin við bryggju eftir veiðum á norsk-íslensku síldinni lauk og horfur það sem eftir lifir ársins eru ekki mjög góðar ef veiðar á íslensku sumargotssíldinni verða ekki heimilaðar í vetur. Vilhjálmur segir að á meðan beðið sé niðurstöðu úr rannsóknum á síldarstofninum horfi menn til veiða á gulldeplu en sú fisktegund var fyrst veidd að einhverju marki fyrir einu ári.

,,Við búumst við að Ingunn AK fari til gulldepluveiða um miðja næstu viku. Það er eitt skip, Hoffell SU, farið að leita gulldeplu en skipið er nú í Vestmannaeyjahöfn vegna veðurs. Sem stendur hafa verið gefin út nokkur leyfi til tilraunaveiða á gulldeplu og gilda þau eingöngu út nóvember. Í fyrra hóf Huginn VE tilraunaveiðar í desember en skriður komst fyrst á veiðarnar í janúar á þessu ári eftir að veiðarfæratilraunir fóru að bera árangur.“

Nýjustu fréttir

Allar fréttir