FréttirSkrá á póstlista

05.10.2009

Velheppnuð haustferð starfsmanna HB Granda

Hin árlega haustferð starfsmanna HB Granda var farin um liðna helgi. Alls tóku um 150 starfsmenn félagsins þátt í ferðinni og að sögn Sigurðar Gunnarssonar, formanns starfsmannafélagsins, þótti takast ákaflega vel til. Ekki spillti fyrir að veður var mjög gott, þrátt fyrir að hitastigið hafi ekki verið langt yfir frostmarkinu.

Haustferðin hófst á því að starfsmenn komu saman í starfsstöðvum HB Granda í Reykjavík og á Akranesi á laugardagsmorgninum og borðuðu saman morgunverð. Um 110 manns voru í Reykjavíkurhópnum og um 40 manns í Skagahópnum. Farið var á fjórum hópferðabílum og hittist hópurinn fyrst á Hvolsvelli þar sem áð var um stund. Þaðan var ekið að Skógarfossi og síðan að Hótel Núpum, fyrir austan Orustuhól, þar sem snæddur var hádegisverður.

,,Við fórum svo að Jökulsárlóni þar sem boðið var upp á siglingar um lónið. Vegna þess hve fjölmennur hópurinn var þá tók siglingin drjúgan tíma,“ segir Sigurður en hann upplýsir að frá Jökulsárlóni hafi verið ekið með þátttakendur að Hótel Laka og Hótel Klaustri en gist var á þessum stöðum um nóttina. Sameiginlegur kvöldverður var um kvöldið á Hótel Klaustri.

Eftir morgunverð á hótelunum á sunnudagsmorgninum var ekið að Seljalandsfossi og síðan var Heklusetrið skoðað. Þaðan var svo haldið að hálendishótelinu Hrauneyjum þar sem boðið var upp á hádegisverð. Á heimleiðinni var stoppað við Hjálparfoss í Þjórsá og ferðinni lauk síðan laust fyrir kl. 18 er komið var að starfsstöðvum HB Granda í Reykjavík og á Akranesi.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir