FréttirSkrá á póstlista

29.09.2009

Verðum að lifa með skertum karfakvóta

,,Þetta er allt í föstum skorðum hjá okkur. Við erum hér vestur af landinu á höttunum eftir karfa, gulllaxi og grálúðu og erum rúmlega hálfnaðir með túrinn. Við fengum þokkalegan gulllaxafla fyrstu vikuna en síðan dró úr veiðinni og síðustu dagana hefur aflinn verið frekar tregur,“ segir Þórður Magnússon, skipstjóri á frystitogaranum Höfrungi III AK.

Þórður segir flesta togarasjómenn geta verið sammála um að septembermánuður sé að jafnaði leiðinlegasti veiðimánuður ársins.

,,Aflinn er jafnan tregur í septembermánuði í samanburði við aðra mánuði ársins. Ég veit ekkert af hverju það stafar en mín kenning er sú að það sé eins og að fiskurinn ruglist í ríminu vegna ljósaskiptanna á þessum árstíma. Hvort það er rétt tilgáta, veit ég ekki en hún er ekki verri en hver önnur,“ segir Þórður.

Að sögn Þórðar er ekki langt síðan að togarar HB Granda gátu sótt í karfa nánast að vild.

,,Nú er hins vegar búið að skerða kvótann það mikið að við verðum að halda aftur af okkur við veiðarnar. Þessi skerðing kvótans virðist vera komin til að vera og með því verðum við að lifa.“

Yfir vetrarmánuðina snúast veiðar áhafnarinnar á Höfrungi III AK að töluverðu leyti um sókn í grálúðu. Þórður segir að þar sem grálúðuveiðarnar séu yfirleitt stundaðar á um 400 faðma dýpi eða meira þá sé lítið um meðafla á þeim veiðum. Grálúðan heldur sig aðallega í hitaskilum og ef togað sé á grynnra vatni þá fáist minni afli.

,,Þar sem vetrarmánuðirnir fara að miklu leyti í glímu við grálúðuna þá hentar það okkur ekki að freista þess að veiða aðrar fisktegundir, s.s. ufsa. Ufsann höfum við veitt yfir sumarið á Halamiðum,“ segir Þórður.

-- En hvað með tegundir eins og þorsk og ýsu?

,,Þorskinn tökum við aðallega sem meðafla á öðrum veiðum. Annars er þorskurinn að mörgu leyti ofmetinn að mínu mati. Það er reyndar mjög þægilegt að ná í hann vegna þess hve þessi fisktegund hefur verið mikið friðuð á undanförnum árum en það er liðin tíð að menn sæki í þorsk til að hala upp aflaverðmætið eins og reyndin var hér áður fyrr. Ef við erum að veiðum á grunnslóð yfir sumarið þá veiðum við ýsu,“ segir Þórður en hann getur þess að þótt ýmsir fiskstofnar hafi látið á sjá eins og endurspeglist í minnkandi kvótum þá sé ekki hægt að segja það sama um hinar ýmsu hvalategundir.

,,Það er allt vaðandi af hval hér allt í kringum okkur. Langreyðar, búrhvalir og ýmis smáhveli eru hér í stórum breiðum um öll mið. Þessar skepnur eru í beinni samkeppni við okkur um fiskinn í sjónum og ég ætla því rétt að vona að það verði haldið áfram að veiða hvali á skynsamlegan hátt um ókomna framtíð,“ segir Þórður Magnússon.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir