FréttirSkrá á póstlista

23.09.2009

Uppsetningu á stálgrindinni að ljúka

,,Hér er allt á áætlun. Veður hefur verið gott og markmiðið er að ljúka við að reisa stálgrindina nú í vikunni. Steypuvinnu við spenna- og rafmagnshús á að ljúka í næstu viku og þá verður strax byrjað að setja upp klæðningu á stálgrindina,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson, verksmiðjustjóri HB Granda á Vopnafirði, en framkvæmdum við nýja fiskmjölsverksmiðju félagsins á staðnum miðar vel og hin nýja bygging er farin að setja svip á umhverfi hafnarsvæðisins.

Samkvæmt áætlunum á að vera lokið við að klæða verksmiðjuhúsið í októbermánuði. Í klæðninguna verða notaðar einangraðar einingar úr áli og eru þær í sama lit og önnur mannvirki HB Granda við höfnina á Vopnafirði.

,,Ég á von á því að klæðingin geti gengið tiltölulega fljótt fyrir sig. Þegar lokið verður við uppsetningu á verksmiðjuþakinu þá verður hægt að koma fyrir varanlegri lýsingu sem auðvelda mun mönnum þá vinnu sem fylgja mun í kjölfarið,“ segir Sveinbjörn en að hans sögn er stefnt að því að byggingin verði fokheld áður en veðráttan versnar. Í framhaldinu verður hægt að hefja uppsetningu á tækjabúnaði en nú þegar er reyndar búið að koma fyrir loftþurrkaranum og eimingartækinu sem voru í verksmiðju félagsins í Reykjavík.

Alls vinna nú um 30 manns við byggingarframkvæmdirnar á Vopnafirði. Þar af eru 10 manns frá Héðni en aðrir eru starfsmenn undirverktaka á staðnum. Reiknað er með því að um 50 starfsmenn komi að framkvæmdunum áður en yfir lýkur en gert er ráð fyrir að verkið verði langt komið um áramót.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir