FréttirSkrá á póstlista

21.09.2009

Hafa elt síldina austur að Síldarsmugunni

,,Við erum á reki hér rétt við 200 mílna mörkin vestan við Síldarsmuguna. Ef allt gengur að óskum þá ættum við að geta hafið veiðar seint annað kvöld eða í síðasta lagi á miðvikudagsmorgun. Það veltur á því hvenær Ingunn AK kemur á miðin en við munum toga með henni að þessu sinni,“ sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE, er við náðum tali af honum fyrir stundu.

Faxi hefur verið á miðunum frá því að Lundey NS hélt til lands með afla um helgina. Ágætis veður er svæðinu og að sögn Alberts eru ein sjö íslensk skip nú að veiðum á línunni á milli íslensk lögsögunnar og Síldarsmugunnar eða í Smugunni sjálfri. Síldin hefur síðustu dagana gengið nokkuð hratt í austurátt og stefnan virðist hafa verið tekin inn í norsku landhelgina.

,,Veiðin er búin að vera köflótt að undanförnu. Sumir hafa fengið góðan afla eftir skamman tíma á meðan aðrir hafa þurft að hafa meira fyrir hlutunum. Við eyddum tveimur sólarhringum í að leita að síldinni í síðustu viku og fundum hana loks norðaustan við kantinn út af Langanesinu. Síðan höfum við elt hana hér út undir 200 mílurnar,“ segir Albert en að hans sögn hefur verið mikið flakk á síldinni í sumar.

,,Vertíðin hefur engu að síður verið mjög góð. Við höfum veitt svo til allan okkar afla í íslenskri landhelgi og við nutum þess að yfirleitt vorum við að veiðum ekki fjarri Vopnafirði. Það skiptir öllu máli fyrir hráefnisgæðin að fá gott veður á landleiðinni og þurfa ekki að sigla um langan veg með aflann,“ segir Albert.

Eins og fram kemur hér annars staðar á heimasíðunni þá eiga hin þrjú uppsjávarveiðiskip HB Granda nú eftir að fara með einn farm hvert til Vopnafjarðar. En hvað tekur við þegar veiðunum á norsk-íslensku síldinni lýkur?

,,Það er ekki gott að segja. Menn horfa til þess að hægt verði að veiða gulldeplu líkt og sl. haust og svo vonar maður auðvitað að það verði leyft að veiða eitthvað af íslenskri sumargotssíld. Það skýrist þó ekki fyrr en eftir rannsóknaleiðangur Hafrannsóknastofnunar nú í haust. Þá vonast maður til að hægt verði að veiða loðnu eftir áramótin,“ segir Albert Sveinsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir