FréttirSkrá á póstlista

17.09.2009

Verksmiðjuhúsið á Vopnafirði tekur á sig mynd

Nýtt verksmiðjuhús HB Granda á Vopnafirði, sem hýsa mun fiskmjölsverksmiðju félagsins, er nú sem óðast að taka á sig mynd. Framkvæmdum miðar vel en starfsmenn Héðins hf. hófu að reisa stálgrind verksmiðjuhússins um síðustu mánaðamót. Áður var búið að steypa hús, sem hýsa mun stjórnstöð verksmiðjunnar, skrifstofur, rannsóknastofu og starfsmannarými.

Nýja verksmiðjuhúsið er 1.200 fermetrar að flatarmáli og á framkvæmdum að vera lokið um næstu áramót.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, er nú búið að reisa góðan hluta stálgrindarinnar og jafnframt er búið að koma fyrir á undirstöðum á verksmiðjugólfinu tveimur stærstu tækjunum sem áður voru í fiskmjölsverksmiðju félagsins í Reykjavík en það eru loftþurrkarinn og eimingartækið.

Góður gangur hefur verið í vinnslu á síldarafurðum á Vopnafirði að undanförnu og í byrjun vikunnar var alls búið að frysta um 3.000 tonn af afurðum frá því að sumarfríum starfsfólks lauk þann 18. ágúst sl.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir