FréttirSkrá á póstlista

31.08.2009

Mikil umsvif í Vopnafjarðarhöfn

Það var mikið um að vera á hafnarsvæðinu á Vopnafirði í síðustu viku því þá var skipað þar út tæplega 3.700 tonnum af sjávarafurðum á vegum HB Granda. Þrjú erlend flutningaskip komu þá til hafnar og lestuðu frystar síldarafurðir, fiskmjöl og -lýsi. Þá voru Faxi RE og Ingunn AK í höfninni með síldarafla á sama tíma og flutningaskipin voru þar á ferðinni.

Samkvæmt upplýsingum Garðars Svavarssonar, sölustjóra fiskmjöls og -lýsis hjá HB Granda, var alls skipað út 1.100 tonnum af fiskmjöli og um 2.000 tonnum af lýsi sl. þriðjudag. Um flutning á mjölinu sá MV/ Grinna en lýsisflutningaskipið heitir West Stream. Verðmæti mjöl- og lýsisútflutningsins í júlí og ágúst nemur alls um 1.500 milljónum króna og segir Garðar að sala afurðanna hafi gengið mjög vel nú í sumar.

,,Stýring veiða og vinnslu hefur gengið vel það sem af er sumri, hráefnið er mjög gott og allar vörur í hæsta gæðaflokki,” segir Garðar Svavarsson.

Frysting á síld hófst á Vopnafirði þann 18. ágúst sl. og hefur vinnslan gengið mjög vel að sögn Jóns Helgasonar, sölustjóra uppsjávarfisks. Um 560 tonn af frystum síldarafurðum voru flutt utan með flutningaskipinu Silver River um fyrri helgi. Hluti farmsins fór til Szczecin (Stettin) í Póllandi en einnig var afurðum skipað upp í Klaipeda í Litháen. Þaðan fara þær landleiðina til landa eins og Úkraínu og Hvíta-Rússlands og reyndar fleiri landa í Austur-Evrópu.

,,Við erum mjög sáttir við gæði framleiðslunnar. Síldin er reyndar nokkuð feit, samflökin eða flapsarnir með um 18% fituinnihaldi og heila síldin um 20%, en það hefur verið stutt á miðin og síldin hefur verið átulaus,” segir Jón Helgason.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir