FréttirSkrá á póstlista

26.08.2009

Síldin komin út undir miðlínuna á milli Íslands og Færeyja

,,Við bíðum á miðunum eftir því að geta byrjað veiðarnar. Þeim er stýrt í samræmi við þarfir vinnslunnar á Vopnafirði og reynt er að hafa síldina sem ferskasta þegar hún er unnin. Ingunn AK er nú á Vopnafirði með afla en við munum toga á móti Lundey NS að þessu sinni. Við reiknum með að fá leyfi til að hefja veiðarnar seinni partinn í dag,” sagði Hjalti Einarsson, fyrsti stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Faxa RE, er við náðum tali af honum laust fyrir hádegið.

Ágæt síldveiði hefur verið að undanförnu og hefur veiðisvæðið verið djúpt austur af landinu. Þar voru sjö íslensk skip í morgun að sögn Hjalta.

,,Það má segja að veiðisvæðið sé beint austur af Fáskrúðsfirði. Við erum núna á 9°V og 64°37´N og héðan eru um 125 sjómílur til lands. Hins vegar er miðlínan aðeins 18 mílum austan við okkur og ef síldin gengur yfir hana og inn í færeysku lögsöguna þá gæti málið vandast. Við megum reyndar veiða síld í færeyskri landhelgi en öðru máli gegnir með makrílinn. Makrílkvóti íslenskra skipa í færeysku landhelginni er löngu búinn,” segir Hjalti en að hans sögn veiðist alltaf eitthvað af makríl með síldinni og því sé varla raunhæft að hægt verði að veiða síldina gangi hún austur fyrir miðlínuna.

,,Það er reyndar ákaflega misjafnt hve mikið er um makríl með síldinni. Það var t.d. lítið um makríl í aflanum sem Ingunn er nú með á Vopnafirði. Síldin er mjög góð. Samkvæmt prufum hjá okkur er meðalvigtin um 370 til 380 grömm og það var lítið af átu í síldinni í aflanum sem Ingunn fór með til lands,” sagði Hjalti Einarsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir