FréttirSkrá á póstlista

25.08.2009

Afkoma HB Granda hf. á fyrri árshelmingi 2009

Rekstur fyrstu sex mánaða ársins 2009

 Rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrri helmingi ársins 2009 námu 56,7 m€, samanborið við 62,9 m€ árið áður. Lækkun tekna á milli ára skýrist einkum af lægri afurðaverðum í erlendri mynt og loðnuvertíðarbresti, sem þó var að hluta veginn upp af aukinni veiði á norsk-íslenskri síld, makríl og gulldeplu. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 12,9 m€ eða 22,8% af rekstrartekjum, en var 13,0 m€ eða 20,6% árið áður. Hærra EBITDA hlutfall skýrist m.a. af veikingu krónunnar. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru jákvæð um 0,3 m€. Á sama tíma árið áður voru áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda samtals neikvæð um 5,5 m€. Meginskýringin á mun á milli ára er að gengismunur og verðbætur voru í ár jákvæð um 3,3 m€ vegna gengisbreytinga mynta gagnvart evru, en í fyrra voru þessir liðir neikvæðir um 1,5 m€. Áhrif hlutdeildarfélaga voru neikvæð um 1,6 m€, einkum vegna taps af fiskeldi í Síle. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 6,3 m€, en hagnaður tímabilsins var 6,0 m€. Tekjuskattur er reiknaður samkvæmt framtali í íslenskum krónum og er því, vegna gengisbreytinga, ekki í réttu hlutfalli við afkomu í evrum. Hagnaður fyrri helmings ársins 2008 fyrir tekjuskatt var 1,7 m€. Hagnaður tímabilsins varð þá 10,8 m€, enda reiknaðist tekjuskattur þá til tekna upp á 9,1 m€ vegna gengistaps í íslensku skattframtali.

Efnahagur

 Heildareignir félagsins námu 287,8 m€ í lok júní 2009. Þar af voru fastafjármunir 248,5 m€ og veltufjármunir 39,3 m€. Eigið fé nam 125,9 m€ og var eiginfjárhlutfall 44,1%, en var 41,3% í lok árs 2008. Heildarskuldir félagsins voru í júnílok 161,9 m€.

Sjóðstreymi

 Handbært fé frá rekstri nam 13,0 m€ á fyrri helmingi ársins 2009, en 8,2 m€ á sama tíma fyrra árs. Fjárfestingahreyfingar námu 6,0 m€ og var stærsti hluti þeirra tengdur uppbyggingu nýrrar fiskmjölsverksmiðju á Vopnafirði. Fjármögnunarhreyfingar námu 8,2 m€ og voru nettó afborganir langtímalána þar af 7,4 m€. Handbært fé lækkaði því um 1,2 m€ og var í lok júní 5,2 m€.

Skipastóll og afli

 Í skipastól HB Granda hf. eru 5 frystitogarar, 3 ísfisktogarar og 4 uppsjávarfiskveiðiskip.

Á fyrri helmingi ársins 2009 var afli skipa félagsins 25 þúsund tonn af botnfiski og 45 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir