FréttirSkrá á póstlista

13.08.2009

Frysting að hefjast að nýju á Vopnafirði

Stefnt er að því að vinnsla og frysting á síld hefjist að nýju í fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði í byrjun næstu viku. Frysting hefur legið niðri undanfarnar vikur vegna sumarleyfa starfsfólks en þeim er nú að ljúka. Að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra eru vinnslulínurnar klárar og hann segist vonast til þess að fá síld til vinnslu strax nk. mánudag.

Um 45 manns munu starfa við síldarvinnsluna í fiskiðjuverinu en unnið er allan sólarhringinn á tveimur 12 tíma vöktum þegar nægur afli berst að landi. Síldin er unnin í svokölluð samflök eða flapsa og er afkastagetan í vinnslunni um 130 til 140 tonn af afurðum á sólarhring.

Öll þrjú uppsjávarveiðiskip HB Granda hafa verið að síldveiðum að undanförnu og hefur aflinn yfirleitt verið góður. Ingunn AK og Lundey NS fengu góðan afla norður af Melrakkasléttu í fyrradag og er Ingunn komin til Vopnafjarðar með um 1.700 tonna afla. Landað verður úr skipinu í dag. Lundey var komin með 1.250 tonn af síld þegar Ingunn hélt til hafnar og er Lundey nú að toga á móti Faxa RE. Að sögn Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarveiðiskipanna, var lítil veiði í gær og í nótt og er nú verið að leita að síld á veiðisvæðinu.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir