FréttirSkrá á póstlista

10.08.2009

Makríll um allan sjó

,,Við hófum veiðar í gær og tókum þá eitt stutt hol. Við erum núna að toga með Lundey NS og það er of snemmt að segja til um hver árangurinn verður. Það er síld hérna en það er erfitt að eiga við hana. Hún er bæði stór og stygg,” sagði Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni AK, er við náðum tali af honum nú í hádeginu.

Ingunn AK fór frá Vopnafirði sl. laugardag eftir að búið var að landa um 1.850 tonna afla úr skipinu. Einnig var landað úr Lundey NS og Faxa RE um helgina og var hvort skip með um 950 tonna afla. Er reiknað með því að Faxi fari til veiða að nýju í kvöld. Er rætt var við Guðlaug var Ingunn stödd um 130 sjómílur norður af Melrakkasléttu eða alveg norður á 68°N. Holið, sem Guðlaugur vitnar til, var tekið mun sunnar en þar var mikið af makríl og því var ákveðið að halda norðar á bóginn.

,,Það vantar ekki að það er makríll hér líka en hlutfall hans í aflanum er þó mun minna en sunnar á veiðisvæðinu eða svo segja þeir mér sem búnir eru að hífa,” segir Guðlaugur en þess má geta að átta íslensk skip eru nú að veiðum á umræddu svæði.

Nú styttist í að skip HB Granda hefji síldveiðar í norsku lögsögunni en þar ræður félagið yfir alls um 6.200 tonna síldarkvóta.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir