FréttirSkrá á póstlista

06.08.2009

Á flótta undan makrílnum

Mikil makrílgengd í íslenskri lögsögu er farin að torvelda síldveiðar íslenskra skipa. Skip HB Granda eru nú að veiðum norður af Melrakkasléttu en að sögn Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarveiðiskipa félagsins, neyddust skipstjórarnir til að hörfa þangað vegna of mikils makríls í aflanum sunnar á veiðisvæðinu.

,,Hlutfall makríls í aflanum í holi, sem Ingunn AK og Þorsteinn ÞH tóku fljótlega eftir að þau komu út á miðin, var of hátt og því var ekki um annað að ræða en að hætta veiðum þar og færa sig norðar,” segir Ingimundur en að hans sögn var kaldi á veiðisvæðinu í gær en í morgun var komið fínasta veiðiveður.

Öll þrjú uppsjávarveiðiskip HB Granda komu með fullfermi til hafnar um síðustu helgi. Ingunn, sem togað hefur á móti Þorsteini sem er í eigu Ísfélags Vestmannaeyja, kom til Vopnafjarðar með rúmlega 1.950 tonna afla. Landað var úr Faxa RE og Lundey NS í Fuglafirði í Færeyjum og var hvort skip með rúmlega 1.500 tonna afla. Eftirstöðvar kvóta HB Granda á norsk-íslenskri síld eru nú um 15.000 tonn.

Svo sem fram hefur komið í fréttum að undanförnu virðist makríl nú vera að finna í miklu magni allt í kringum landið. Makríltorfur hafa sést vaða fyrir sunnan, vestan og norðan landið og hefur þessi fiskur gengið alveg inn í hafnir eins og nýleg dæmi frá Vestmannaeyjum, Garði og Akureyri sanna. Um makrílgengdina fyrir austan land þarf ekki að fjölyrða. Þar eru síldveiðiskipin á flótta undan makrílnum.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir