FréttirSkrá á póstlista

27.07.2009

Landburður af síld eftir mokveiði um helgina

Mjög góð síldveiði var um helgina og eru flest síldveiðiskipanna, sem ekki eru með vinnslu um borð, nú ýmist komin til hafnar með afla eða á leiðinni til lands. Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, segir að það hafi verið mokveiði síðdegis í gær á veiðisvæðinu sem er um 100 mílur beint austur af Vopnafirði.

Lundey NS var komin inn á Vopnafjörð nú laust fyrir hádegið en Arnþór sagðist ætla að bíða með að leggjast að bryggju þar sem þar er nú verið að landa um 1.900 tonna afla úr Ingunni AK. Arnþór áætlar að afli Lundeyjar í veiðiferðinni sé um 1.550 tonn. Lundey hefur togað á móti Faxa RE og var Faxi nú í morgun á leið til Eskifjarðar með rúmlega 1.500 tonna afla.

Að sögn Arnþórs hafa skip HB Granda og Þorsteinn ÞH, sem togar á móti Ingunni, verið heldur norðar á veiðisvæðinu en hin síldveiðiskipin og þar hefur hlutfall makríls í aflanum verið töluvert lægra.

,,Við fengum t.d. nánast engan makríl núna undir lok veiðiferðarinnar. Síldin tók upp á því í fyrradag að ganga mjög hratt austur eftir og það er eins og að makrílinn hafi setið eftir. Það er mjög gott ástand á síldinni um þessar mundir. Hún er feit, nánast átulaus og hentar mjög vel til vinnslu. Þeir á vinnsluskipunum hafa haft orð á því að það hafi verið mjög lítið um átu í síldinni í óvenju langan tíma,” sagði Arnþór Hjörleifsson.

Samkvæmt upplýsingum Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, er áætlað að um 17% af afla Ingunnar, sem nú er verið að landa á Vopnafirði, sé makríll en hlutfall makríls í síldaraflanum má ekki fara yfir 12% á tímabilinu frá 9. júlí til 15. september. Kvótastaða HB Granda í norsk-íslensku síldinni er ágæt og að sögn Vilhjálms er nú búið að veiða rúmlega helming af heildarkvótanum sem er um 38.000 tonn á þessu ári.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir