FréttirSkrá á póstlista

23.07.2009

Loðnuát í 8,3°C heitum sjó

Fréttin um loðnuát makrílsins, sem birtist á heimasíðu HB Granda sl. mánudag, hefur vakið töluverða athygli enda eru miklir hagsmunir í húfi. Ljóst er að makríll er farinn að ganga í gríðarlegu magni á Íslandsmið og vart hefur orðið við þessa fisktegund allt í kringum landið. Loðnustofninn hefur hins vegar verið í lægð og fyrir vikið var loðnuveiði á síðustu vertíð sama og engin. Sé það rétt að makríll éti loðnu í töluverðum mæli þá gæti framtíð loðnuveiðanna verið í enn meiri óvissu en ella hefði verið.

Fjallað var um loðnuát makrílsins í hádegisfréttum RÚV í gær í framhaldi af fréttinni á heimasíðu HB Granda. Rætt var við Svein Sveinbjörnsson fiskifræðing hjá Hafrannsóknarstofnun sem sagði að þessi frétt kæmi mönnum nokkuð á óvart því loðnan væri hánorrænn fiskur sem héldi sig í svölum og köldum sjó en makríllinn væri hlýsjávarfiskur sem gangi yfirleitt ekki að verulegu ráði yfir í sjó sem sé kaldari en 8-9 gráður. Makríllinn gæti þó farið inn í kaldari sjó en Sveinn sagðist ekki hafa trú á að hann haldi sig þar lengi. Í ljósi þess að makríll hefði ekki gengið í verulegum mæli inn í íslenska landhelgi fyrr en sumarið 2007 væri lítið vitað um hegðunarmynstur hans. Sagði Sveinn að sjómenn og Hafrannsóknarstofnun yrðu að hjálpast að við að rannsaka hegðunarmynstur hans.

„Ég yrði mjög þakklátur ef að þau skip sem yrðu vör við loðnu í makríl myndu senda okkur sýni ásamt upplýsingum hvar þetta veiðist og um sjávarhita á veiðislóðinni,“ sagði Sveinn Sveinbjörnsson í viðtalinu við RÚV.

Því er við þetta að bæta að skipverjar á Lundey NS, sem fyrstir vöktu athygli á fæðuvali makrílsins, brugðust skjótt við þegar þeir heyrðu viðtalið við Svein Sveinbjörnsson. Í tölvupósti, sem þeir sendu til deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, kemur fram að sjávarhiti á umræddu veiðisvæði hafi verið um 8,3°C. Það hafi verið sá hiti sem kom fram á mælum um borð í Lundey NS og fengist hafi staðfesting á því að önnur skip hafi mælt sambærilegan sjávarhita á sömu slóðum.

Af síldveiðum skipa HB Granda er annars það að segja að Faxi RE kom til Eskifjarðar í nótt með fullfermi og Lundey NS kom í gær með 1.310 tonna afla til Vopnafjarðar. Ingunn AK er nú að veiðum með Þorsteini ÞH. 

,,Veiðin norður af Melrakkasléttu datt niður um það leyti sem Ingunn hóf veiðar. Aflinn var um 350 tonn í fyrsta holi eftir langan tíma. Ákveðið var að færa sig sunnar í framhaldinu og í nótt voru Ingunn og Þorsteinn að toga um 70 sjómílur austur af Vopnafirði. Þá voru skip einnig að fá síld suður í Litladjúpi,” sagði Ingimundur Ingimundarson, rekstrarstjóri uppsjávarveiðiskipa HB Granda, nú í morgun.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir