FréttirSkrá á póstlista

20.07.2009

Makríllinn sólginn í loðnuna

Mjög góð síldveiði var um helgina á veiðisvæði sem er um 100 sjómílur norður af Melrakkasléttu. Skip HB Granda voru að veiðum á svæðinu og að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs félagsins, var mjög mikið líf á svæðinu, síld, makríll og loðna en auk þess er þar mikill fjöldi hnúfubaka.

Faxi RE og Lundey NS, sem veitt hafa saman, komu til löndunar á Vopnafirði sl. föstudagskvöld með samtals 2.450 tonna afla. Skipin voru komin aftur á miðin á laugardagskvöld og voru þau búin að fá um 1.700 tonna afla um miðnættið. Ingunn AK og Þorsteinn ÞH hafa verið saman að veiðum fengu einnig góðan afla og voru bæði skipin komin með fullfermi um miðjan dag í gær. Ingunn var með um 2.000 tonna afla og var hafist handa við að landa afla úr skipinu í morgun.

Það hefur vakið athygli skipverja á síldveiðunum að svo virðist sem að makríllinn, sem veiðist í smávægilegu magni með síldinni, er ýmist úttroðinn af loðnu eða síld. Til marks um þetta er bloggfærsla vélstjóranna á Lundey NS sem birtist á heimasíðu skipsins í gær.

,,Við höfum skoðað í magann á makrílnum í báðum hölunum í þessum túr. Í gærkvöldi var yfirgnæfandi meirihluti makrílsins með loðnu í maganum, flestir með eina og síldarhreistur með, en í dag voru þeir færri með loðnu, en allt upp í þrjár hálfmeltar loðnur fundust í einum makríl. Eins var rauðáta og síldarhreistur í þeim flestum. Mjög algengt er að sjá síldarhreistur í maga makrílsins og vekur það upp nokkrar spurningar, en í gær virtist það ómelt og spurning hvort makríllinn er að éta það í trollinu, eða hvort það geti virkilega verið að hann sé að ráðast á síldina. Tekið skal fram að úrtakið er aðeins nokkur stykki af makríl og til að fá skýrari mynd af þessu þyrfti að skoða fleiri. Annars þarf að hvetja til rannsókna á makrílnum.”

Svo mörg voru þau orð og full ástæða er til að taka undir nauðsyn þess að rannsóknir á makrílnum verði efldar. Þá er það sömuleiðis alvörumál ef makríllinn er að éta tveggja ára loðnu í miklum mæli en sá árgangur á að bera uppi veiðina á komandi loðnuvertíð.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir