FréttirSkrá á póstlista

15.07.2009

Lítil síldveiði og hlutfall makríls í aflanum innan við 10%

Síldveiði úr norsk-íslenska síldarstofninum hefur dottið mikið niður eftir að sjávarútvegsráðherra ákvað um miðja síðustu viku að banna beina sókn í makríl og banna síldveiðar frá sama tíma fyrir sunnan 66°N.

,,Skipin okkar hafa verið að veiðum austur og norður af Langanesi. Það hefur lítill kraftur verið í veiðunum og skipin sem stundað hafa veiðar ein hafa ekki fengið mikið. Tvílembingunum, eða skipunum sem eru tvö saman með eitt troll, hefur gengið betur á síldveiðunum en síldin hefur verið á mikilli ferð og það hefur oftar en ekki verið erfitt að hitta á hana,” segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda.

Að sögn Vilhjálms varð Lundey NS fyrst skipa HB Granda til að landa afla sem fékkst eftir að uppsjávarveiðiskipin urðu að fara norður fyrir fyrrgreinda línu en skipið kom til Vopnafjarðar sl. sunnudag með um 1.400 tonn. Uppistaða aflans var norsk-íslensk síld en einnig voru í aflanum 122 tonn af makríl, eða um 9% heildaraflans, og 9 tonn af kolmanna.

,,Það hefur aðeins orðið vart við kolmunna á þessu nýja veiðisvæði en meðafli er annars lítill. Það hafa fengist hol þar sem síldin er alveg laus við allan meðafla og upp í það að makrílaflinn í einstökum holum nær því að vera um 15% af heild. Meðaltalið er sennilega vel innan við 10%,” segir Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Faxi RE og Lundey NS eru nú að toga saman og að sögn Vilhjálms var Ingunn AK í dag að hefja ,,tvílembingsveiðar” með Þorsteini ÞH.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir