FréttirSkrá á póstlista

13.07.2009

Mjöltankarnir hífðir í land á Vopnafirði

Dráttarbáturinn og pramminn sem fluttu tíu mjöltanka og annan búnað fiskmjölsverksmiðju HB Granda frá Reykjavík til Vopnafjarðar komu á áfangastað seint í gærkvöldi. Byrjað var að afferma prammann snemma í morgun og er reiknað með því að hægt verði að hífa hina 22 metra háu mjöltanka í land fljótlega eftir hádegið.

,,Ferðin gekk eins og í sögu og starfsmenn Héðins og norska undirverktakans eru langt komnir með að flytja annað búnað fiskmjölsverksmiðjunnar en mjöltankana frá borði. Það verður svo farið í að hífa tankana í land eftir hádegið,” sagði Sveinbjörn Sigmundsson verksmiðjustjóri HB Granda á Vopnafirði er við náðum tali af honum nú rétt fyrir hádegið.

Það var að vonum mikill viðbúnaður á Vopnafirði vegna komu dráttarbátsins og flutningaprammans og m.a. höfðu verið fengnir þangað tveir gríðarstórir kranar, annar frá Egilsstöðum en hinn frá Reykjavík. Að sögn Sveinbjarnar verða tankarnir hífðir beint á undirstöður sínar og reiknaði hann með að því verki myndi ljúka seint í kvöld.

,,Áætlanir gera svo ráð fyrir því að fiskmjölsverksmiðjan hér á Vopnafirði verði síðan fullbyggð og komin í fullan rekstur í byrjun næsta árs,” segir Sveinbjörn Sigmundsson.

Hægt er að fylgjast með framkvæmdum á Vopnafirði með hjálp vefmyndavélar á Vopnafjordur.is .

Nýjustu fréttir

Allar fréttir