FréttirSkrá á póstlista

07.07.2009

Ótvíræð batamerki á ufsaveiðum hjá togurunum

Togarar HB Granda hafa að undanförnu fengið mjög góðan ufsaafla og hafa mikil umskipti orðið í ufsaveiðunum til hins betra á síðustu vikum eftir frekar dapra veiði framan af árinu. Að sögn Birkis Hrannars Hjálmarssonar, rekstrarstjóra togaranna, hefur ufsaveiðin verið sérstaklega góð í kantinum fyrir vestan landið og einnig hefur fengist góð veiði á hinu svokallaða suðursvæði.

,,Höfrungur III AK hefur verið að veiðum vestur í kantinum og hann fékk rúmlega 150 tonn af stórum og góðum ufsa á aðeins sex dögum. Það eina, sem hægt er að setja út á, er að þarna hefur verið töluvert af þorski sem veiðst hefur með ufsanum. Það hefur sett okkur í nokkurn vanda og valið stendur um að eyða þorskkvótanum á ufsaveiðunum eða nýta hann til þess að leita að ýsu,” segir Birkir Hrannar.

,,Það hefur líka verið góður gangur í ufsaveiðunum hjá ísfisktogurunum. Ottó N. Þorláksson RE hefur verið á suðursvæðinu og var með samtals um 330 til 340 tonna afla í síðustu tveimur veiðiferðum og þar af voru rúmlega 200 tonn af ufsa. Annar afli var karfi. Ásbjörn RE var með um 290 tonna afla eftir jafn margar veiðiferðir, eða samtals níu daga á veiðum, og þar af voru um 160 tonn af ufsa. Annar afli var karfi og þorskur. Fyrri veiðiferðin var farin á Fjallasvæðið en hin í kantinn fyrir vestan og líkt og hjá Höfrungi III var ufsinn þar stór og góður og hentaði mjög vel til vinnslu,” segir Birkir Hrannar en að hans sögn hefur Sturlaugi H. Böðvarssyni AK ekki verið haldið til ufsaveiða af sama krafti og hinum tveimur ísfisktogurunum. Þess í stað hefur Sturlaugur í meira mæli sinnt þorsk- og karfaveiðum. Þess má reyndar geta að togarinn fékk mjög góða ufsaveiði á einum veiðidegi í Reykjafjarðarálnum á dögunum þannig að ufsann er víða að finna um þessar mundir.

,,Þorskveiðin er ekki eins mikil kraftveiði hjá okkur og ufsa- og karfaveiðarnar og það helgast fyrst og fremst af kvótanum. Við verðum að stýra þorskveiðunum með harðri hendi og gæta þess að eiga jafnan þorskkvóta til þess að nota þar sem þorskurinn veiðist jöfnum höndum með fisktegundum eins og ufsa og ýsu,” segir Birkir Hrannar Hjálmarsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir