FréttirSkrá á póstlista

07.07.2009

Mjög góð veiði um helgina

Mjög góð síld- og makrílveiði var SA af landinu um helgina, líkt og um fyrri helgi, en eins og þá dalaði veiðin verulega þegar kom fram á mánudagsnóttina. Uppsjávarveiðiskip HB Granda hafa fengið góðan afla og hefur honum ýmist verið landað á Vopnafirði eða í Færeyjum.

Að sögn Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarveiðiskipanna, veiðast síld og makríll á veiðisvæðinu fyrir SA landi. Víkingur AK hefur verið notaður til að flytja afla af miðunum og skipið fór tvívegis til Færeyja um helgina, fyrst á föstudagskvöldið með rúmlega 1.000 tonna afla og síðan kom það til Fuglafjarðar í fyrrinótt með svipaðan afla. Aflinn er afrakstur veiða Faxa RE og Ingunnar AK. Lundey NS var á Vopnafirði á sunnudag og þar var landað um 1.530 tonna afla.

Í gærmorgun var Faxi kominn með um 950 tonn í lestar. Um 800 tonn fengust með Ingunni á sunnudeginum og um 150 tonn fengust á veiðum með Lundey í einu holi. Ingunn var þá komin með um 370 tonn sem fengust í tveimur holum en Ingunn hefur verið einskipa að veiðum eftir að Lundey kom að nýju á miðin. Að sögn Ingimundar leituðu skipin í gær að síld og makríl út undir miðlínuna á milli Íslands og Færeyja en síðdegis sama dag voru þau búin að færa sig norðar og voru þau þá stödd um 100 sjómílur austur af Hornafirði.

Eftirstöðvar kvóta HB Granda í norsk-íslensku síldinni eru nú rúmlega 30.000 tonn en þar af má veiða 6.250 tonn í norskri landhelgi.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir