FréttirSkrá á póstlista

03.07.2009

Mjöltankarnir fluttir í lok næstu viku

Að undanförnu hefur staðið yfir undirbúningur vegna flutnings á tíu mjöltönkum HB Granda frá Reykjavík til Vopnafjarðar. Von er á flutningapramma frá Noregi til Reykjavíkur um miðja næstu viku og verða tankarnir fluttir á honum. Ef allt gengur að óskum og vel viðrar þá er vonast til að tankarnir verði komnir til framtíðarheimkynna sinna á Vopnafirði mánudaginn 13. júlí nk.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, er stefnt að því að lesta flutningaprammann á fimmtudag og föstudag í næstu viku. Mjöltankarnir voru hluti fiskmjölsverksmiðju félagsins í Reykjavík en þar var vinnslu hætt í ársbyrjun 2005. Tankarnir voru 18 metra háir en þeir hafa nú verið hækkaðir um fjóra metra en það var gert til að hægt væri að koma fyrir í þeim svokölluðum sprengilúgum en slíks búnaðar er nú krafist samkvæmt reglugerð. Auk tankanna verða ýmis tæki úr fiskmjölsverksmiðjunni í Reykjavík flutt til Vopnafjarðar þar sem þau munu nýtast í verksmiðjunni á staðnum.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir