FréttirSkrá á póstlista

30.06.2009

Ingunn AK með 1.900 tonn af síld og makríl til Færeyja

Nú er verið að landa úr Ingunni AK hjá fiskmjölsverksmiðjunni Havsbrún í Fuglafirði í Færeyjum. Skipið er með um 1.900 tonna afla og er uppistaða hans að þessu sinni makríll. Að sögn Róberts Axelssonar, sem var skipstjóri í veiðiferðinni, reiknar hann með að lokið verði að landa úr skipinu síðar í dag og það ætti því að vera hægt að láta úr höfn með kvöldinu.

Ingunn AK var að veiðum með Lundey NS lengst af síðustu veiðiferð en þó voru tekin tvö hol einskipa fyrst eftir komuna á miðin og síðan í lokin. Veiðisvæðið var um 80 sjómílur ASA af Hornafirði en þaðan er um 190 sjómílna sigling til Fuglafjarðar. Tók ferðin um 16 tíma að sögn Róberts. Hann segir að ágætis veiði hafi verið um síðustu helgi en svo virðist sem að aflinn hafi heldur dottið niður nú í byrjun vikunnar.

,,Mér skilst að íslensku skipin séu nú að leita að síld norðvestan við það svæði sem við vorum á um helgina,” segir Róbert en hann upplýsir að töluverð áta hafi verið í síldinni og makrílnum upp á síðkastið og fiskurinn fitni hratt við þessar aðstæður. Það sé mjög jákvætt, ekki síst þegar menn þurfi að landa aflanum til bræðslu en hátt lýsishlutfall sé ávísun á gott verð fyrir aflann.

Að sögn Róberts er allur gangur á því hvort makríllinn veiðist sér eða með síldinni. Að þessu sinni hafi hlutfall makríls í aflanum verið hærra en oftast áður.

,,Það er mjög erfitt að átta sig á því hvort það er makríll eða síld sem er undir hverju sinni. Makrílinn heldur sig grunnt og kemur illa fram á mælum,” segir Róbert Axelsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir