FréttirSkrá á póstlista

29.06.2009

Loksins glæddist ufsaveiðin

Ísfisktogarinn Ásbjörn RE er nú að veiðum en skipið kom til hafnar sl. fimmtudagskvöld og fór út að nýju um helgina. Það bar helst til tíðinda í síðustu veiðiferð að ufsinn gaf sig loksins til en ufsaafli togaranna hefur verið með tregara móti það sem af er árinu.

,,Það var kominn tími til að fá góðan ufsaafla og það tókst að þessu sinni. Við vorum með 96 tonn af ufsa og einnig um 46-47 tonn af karfa,” segir Friðleifur Einarsson, skipstjóri á Ásbirni RE, en að hans sögn var skipið að veiðum á Fjöllunum eða hinum hefðbundnu heimamiðum ísfisktogara HB Granda. Til marks um ufsaaflann að þessu sinni má nefna til samanburðar að lítið fékkst af ufsa í aprílmánuði og það sem af er júní hefur aflinn yfirleitt ekki verið nema um 30 til 35 tonn af ufsa í túr.

,,Ufsinn er þarna. Það er engin spurning. Þótt togurunum hafi gengið illa að veiða ufsa þá hefur verið góður ufsaafli hjá færabátum en af einhverjum ástæðum hefur hann verið síður veiðanlegur í troll,” sagði Friðleifur Einarsson.

Tveir ísfisktogara HB Granda, Ásbjörn RE og Sturlaugur H. Böðvarsson AK, eru nú að veiðum en Ottó N. Þorláksson RE er nú inni vegna löndunar.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir