FréttirSkrá á póstlista

11.06.2009

Lítið að sjá af síld eftir að veiðar hófust að nýju

Öll þrjú uppsjávarveiðiskip HB Granda eru nú á síldveiðum en hlé var gert á veiðunum í lok síðustu viku vegna sjómannadagsins. Samkvæmt upplýsingum Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarveiðiskipanna, fór Lundey NS til veiða sl. mánudag og Faxi RE og Ingunn AK degi síðar.

,,Lundey leitaði að síld norðaustur af landinu eða á hinu svokallaða Drekasvæði og er skemmst frá því að segja að árangurinn var lítill. Á þessu svæði fékkst um 80 tonna afli og nú hefur stefnan verið tekin í norður í áttina að Jan Mayen. Faxi og Ingunn hófu partrollsveiðar í gærkvöldi suðaustur af landinu, nánar tiltekið í Rósagarðinum. Þar var lítið að sjá í nótt en útlitið var örlítið skárra núna í morgun. Hver útkoman verður, kemur ekki í ljós fyrr en búið er að hífa,” segir Ingimundur Ingimundarson.

Það eru bæði gömul sannindi og ný að oft tekur tíma að ná upp dampi í síldveiðunum eftir sjómannadaginn. Veiðar Faxa og Lundeyjar gengu mjög vel í síðustu viku og þá var aðeins um 12 til 13 klukkustunda sigling á miðin frá Vopnafirði. Tók það að jafnaði ekki nema um sólarhring fyrir hvort skip að ná 450 til 500 tonna afli eða því aflamagni sem hentaði best fyrir vinnsluna hjá fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði. Þar fóru síðustu síldarnar í gegnum flökunarvélarnar sl. föstudagsmorgun og nú er þess beðið að veiðin taki sig upp að nýju þannig að vinnsla geti hafist á nýjan leik.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, hefur vinnsla á síld gengið mjög vel á Vopnafirði. Þar var búið að landa 2.635 tonnum af síld fyrir sjómannadag og þar af tókst að frysta 915 tonn af samflökum (flöpsum). Rúmlega 1.700 tonn hafa farið til bræðslu og er þar um að ræða svokallað hrat eða úrgangur frá flakavinnslunni og síld sem hefur verið flokkuð frá þar sem hún hefur ekki þótt henta til vinnslu.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir