FréttirSkrá á póstlista

07.06.2009

Byrjaði ferilinn sem hálfdrættingur á Jóni Þorlákssyni RE

Eiríkur Ragnarsson hefur verið skipstjóri á frystitogaranum Helgu Maríu AK frá árinu 1995 en hann hóf störf um borð sem annar stýrimaður í aprílmánuði 1988. Þá hét skipið reyndar Haraldur Kristjánsson HF og var nýjasta og glæsilegasta fiskiskip landsmanna. Eiríkur hefur því staðið í brúnni á umræddu skipi í rúma tvo áratugi og verið farsæll í starfi eins og aðrir skipstjórar HB Granda. Er rætt var við Eirík var hann um borð í Helgu Maríu rétt innan við 200 mílna lögsögumörkin á Reykjaneshryggnum, í góðum afla og ágætasta veðri. Að gömlum og góðum sið var Eiríkur fyrst spurður um ætt og uppruna.

,,Ég er Reykvíkingur í húð og hár. Foreldrar mínir eru Ragnar Franzson og Lofthildur Loftsdóttir sem bæði eru ættuð úr Breiðafirðinum. Pabbi var togaraskipstjóri og starfaði hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur (BÚR) svo til allan sinn starfsferil. Hann tók við skipstjórn á Þorkeli mána RE af Marteini Jónassyni skipstjóra, sem einnig var framkvæmdastjóri fyrirtækisins, eftir Nýfundnalandsveðrið mikla en þá mátti engu muna að skipið færi niður vegna óveðursins og ísingarinnar sem hlóðst á það. Afi minn í föðurættina hét Franz og var Arason en hann var lengi háseti og bátsmaður hjá Kveldúlfsútgerðinni, m.a. á togaranum Skallagrími. Loftur Jónsson, hinn afi minn, var á sínum tíma formaður á opnum bátum, sem gerðir voru út frá Grindavík, þannig að það var svo sem ekkert skrýtið að ég færi til sjós og gerði sjómennskuna að ævistarfi,” segir Eiríkur en þess má geta að hann fór fyrst til sjós árið 1970, þá 14 ára gamall, upp á hálfan hlut.

,,Ég var hálfdrættingur á togaranum Jóni Þorlákssyni RE á móti frænda mínum Páli Eyjólfssyni en pabbi var þá skipstjóri. Leiðir okkar frændanna áttu reyndar eftir að liggja saman síðar því við vorum um skeið saman á Karlsefni RE og þegar Haraldur Kristjánsson HF kom til landsins var Helgi Kristjánsson skipstjóri, Páll var 1. stýrimaður og ég var 2. stýrimaður,” segir Eiríkur sem fór í Sjómannaskólann árið 1974 og lauk fiskimannsprófinu tveimur árum síðar. Farmanninn kláraði hann svo árið 1981.

,,Ég varð fyrst stýrimaður á Dagstjörnunni KE sem síðar fékk nafnið Sveinn Jónsson KE. Síðar lá leiðin yfir á Ásbjörn RE þar sem ég var hvort tveggja stýrimaður og afleysingaskipstjóri. Um þessar mundir var ég ekki alveg ráðinn í því hvað ég vildi gera eða hvort ég vildi halda áfram til sjós. Ég fór í nám í útgerðartækni árið 1985 með það í huga að finna mér starf í landi. Það var hins vegar ekki mjög margt í boði á þeim vettvangi á höfuðborgarsvæðinu. Mér stóð til boða starf sem útgerðarstjóri á Vestfjörðum en eiginkonunni leist ekkert á að flytja út á land þannig að niðurstaðan varð sú að ég fór aftur á sjóinn.”

Skuttogaravæðingin var mesta byltingin

Þótt Eiríkur sé ekki nema rétt liðlega fimmtugur þá man hann tímana tvenna og margt hefur breyst til batnaðar frá því að hann hóf störf sem sjómaður.

,,Ég byrjaði á síðutogurunum og stærsta breytingin og mesta byltingin er án efa skuttogaravæðingin. Það var til mikilla bóta að þurfa ekki að taka trollið inn á síðunni, það þurfti færri menn við það verk eftir að skuttogararnir komu til skjalanna og síðast en ekki síst þá jókst öryggi manna til muna við þessa breytingu. Tækniframfarirnar eru sömuleiðis ótrúlegar. Nú erum við t.d. með tæki á höfuðlínunni sem sýna þegar fiskur gengur inn í trollið og aðra nema sem sýna þegar fiskurinn er kominn aftur í pokann. Það er hægt að vera með t.d. þrjá aflanema og stilla þá þannig að sá fyrsti kveiki á sér þegar aflinn er orðinn eitt tonn, sá næsti gefur til kynna þegar þrjú til fjögur tonn eru komin í pokann og þann þriðja má stilla á sex til átta tonna afla svo dæmi séu nefnd. Hér áður fyrr sáu menn bara lóðningu á dýptarmælinum sem þeir vonuðu að væri fiskur og það ætur fiskur. Það var kastað á lóðninguna og síðan var híft. Nú sjáum við þegar trollið kemur í botn. Við erum með mæla á toghlerunum sem sýna fjarlægðina á milli þeirra og fjarlægð þeirra frá botni. Þá eru ónefndir leiðarritarnir, sem menn nefna venjulega plottera, en með þeim er hægt að skrá og geyma togslóðir í minni tölvunnar svo ekki munar meira en metra. Það er ekki nóg með að hægt sé að skrá eigin togferil á þennan hátt, heldur er með nýjustu tækni hægt að skrá togferla annarra skipa í allt að 20-30 km fjarlægð ef áhugi er á. Þennan gagnabanka er síðan hægt að nýta að vild,” segir Eiríkur.

Minnisstæðir félagar

Svo sem að líkum lætur hefur Eiríkur kynnst mörgum eftirminnilegum sjómönnum í starfi sínu en hann segir erfitt að gera upp á milli manna.

,,Þeir eru svo margir. Ef ég ætti að nefna þann sem ég lærði hvað mest af þá verð ég trúlega að nefna karlinn hann pabba. Ef ég ætti hins vegar að nefna skemmtilegasta manninn í flotanum þá myndi ég hiklaust nefna Steingrím Þorvaldsson skipstjóra á Vigra RE. Hann er reyndar að hætta störfum um þessar mundir og hans verður sárt saknað. Þegar menn notuðu enn talstöðina í samskiptum sín á milli var Steingrímur hrókur alls fagnaðar, mikill sögumaður og það var alltaf mikið fjör á bleyðunum ef Steingrímur og Vigri voru einhvers staðar í nágrenninu. Nú geta liðið heilu vaktirnar án þess að maður heyri í stöðinni en Steingrímur má þó eiga það að hann heldur tryggð við talstöðina. Nú talast menn við í síma, þ.e.a.s. ef þeir talast við, og leynimakkið á miðunum hefur aukist til mikilla muna. Nú vilja menn helst ekki miðla upplýsingum á milli manna og ég verð að segja eins og er að ég sakna talstöðvartímanna. Loks vil ég minnast manns, sem var matsveinn hérna um borð í átta ár, en hann hét Elías Hjörleifsson. Elías lést um aldur fram vegna veikinda en auk þess að vera kokkur var hann listamaður og afburða skemmtilegur og góður félagi. Það var mikill missir allra í áhöfninni þegar hann féll frá enda leiddist engum nálægt honum. Hann hélt uppi móralnum um borð með skemmtilegum uppákomum og listsýningum hér á göngum skipsins og honum virðist hafa tekist vel að miðla listhneigðinni til afkomendanna því Ólafur Elíasson, hinn þekkti listamaður, er sonur Elíasar,” segir Eiríkur en í framhaldinu berst talið að stöðu sjómanna í dag.

,,Ég held að hún hljóti að teljast ágæt og það er a.m.k. ekki hægt að kvarta eins og ástandið er í þjóðfélaginu um þessar mundir. Sjómenn hafa haldið sínum störfum og það er mikil ásókn í að komast í skipsrúm. Það sleppir enginn sínu plássi. Skipstjórarnir fá stöðugar hringingar þar sem spurst er fyrir um pláss og útgerðarstjórarnir fá örugglega svipaðan skammt. Það er hins vegar ekkert svo langt síðan að það var erfitt að manna ísfiskskipin, þótt vel gengi að manna frystiskipin. Á uppgangstímunum má eiginlega segja að sjómenn hafi lækkað í launum miðað við aðrar stéttir vegna þess hve krónan var sterk. Nú hafa launin frekar hækkað vegna veikingar krónunnar þrátt fyrir að afurðaverðið hafi gefið eitthvað eftir.”

Athugandi hvort ekki eigi að færa sjómannadaginn

Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur sunnudaginn 7. júní og það er því við hæfi að spyrja Eirík að því hvaða þýðingu sá dagur hafi í hans huga.

,,Sjómannadagurinn er nauðsynlegur fyrir okkur. Hann gefur mönnum tækifæri á að hittast en mestu máli skiptir þó að tækifærið er notað til að minnast sjómanna sem fallið hafa frá og votta þeim og fjölskyldum þeirra virðingu. Þá eru eldri sjómenn heiðraðir fyrir ævistarfið og aðrir fyrir björgunarafrek. Mér finnst hins vegar að vægi sjómannadagsins í huga almennings hafi minnkað. Það er af sem áður var að meirihluti þjóðarinnar tengdist einhverjum sem komu að störfum í sjávarútvegi. Tímasetning sjómannadagsins er sömuleiðis umdeild. Það er verið að sigla úr góðum afla á úthafskarfamiðunum og hið sama á við um síldveiðiflotann. Þá hefur komið fyrir að hið mikla aflamagn sem berst að landi á skömmum tíma hafi valdið verðlækkun. Sjálfum finnst mér að það sé vel athugandi hvort ekki sé rétt að flytja sjómannadaginn og halda hann hátíðlegan t.d. um mánaðamótin ágúst-september, hin svokölluðu kvótaáramót. Hátíð á þeim tíma myndi ekki leiða til sömu launalækkunar hjá miklum fjölda sjómanna og nú er reyndin.”

Það er leitun að betra sjóskipi

Líkt og fram kemur í inngangi var Eiríkur með skip sitt að veiðum á úthafskarfamiðunum þegar þetta viðtal var tekið. Hann segir að Helga María AK hafi komið á miðin ásamt Þerney RE og Venusi HF 17. maí sl. og þá hafi strax fengist góður afli rétt innan við 200 mílna lögsögumörkin.

,,Veiðin hefur verið langt umfram væntingar enda bjuggust menn ekki við miklu. Vertíðin var léleg í fyrra og menn voru undir það búnir að ástandið yrði ekki betra nú. Það hefur hins vegar verið fín veiði. Við byrjuðum á línunni en síðan gekk karfinn um 40 mílur inn í íslensku landhelgina. Þegar okkur þótti sem að veiðin væri farin að tregast þá fórum við aftur út að línunni og þar höfum við verið í ágætum afla síðustu dagana. Auk íslensku skipanna eru hér um 25 erlend skip sem raða sér á línuna en sem betur fer samþykkti NEAFC, sem sér um stjórn úthafskarfaveiðanna, að hafa eftirlitsskip á miðunum og þau hafa gætt þess að farið sé að settum reglum. Það var íslenskt varðskip á svæðinu þegar við komum út og nú er hér þýskt skip, See Adler, við eftirlit,” segir Eiríkur en í samtalinu við hann kemur fram að Helga María AK sé afburðagott sjóskip.

,,Þetta skip og systurskipið, sem nú heitir Málmey SK, voru fyrstu íslensku skipin sem hönnuð voru frá grunni sem frystitogarar. Svo vel tókst til við hönnunina að leitun er að skipum sem fara betur með áhöfnina í brælum. Við fáum reglulega eftirlitsmenn frá Fiskistofu með okkur og þeir segja allir sem einn að hvergi sé betra að sofa en um borð í Helgu Maríu og Málmey. Helgu Maríu hefur verið vel við haldið. Þetta er gott togskip, þrátt fyrir að vélaraflið sé aðeins tæplega 3.000 hestöfl og reyndar skilar vélin ekki nema um 2.400 til 2.500 hestöflum þegar frysting er í gangi þar sem að hluti af orkunni fer í að framleiða rafmagn fyrir vinnsluna. Það hefur farið vel á með okkur Helgu Maríu í þessi rúmlega 20 ár og það er óhætt að fullyrða að a.m.k. Helga María ber aldurinn vel,” segir Eiríkur Ragnarsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir