FréttirSkrá á póstlista

07.06.2009

Á sjó frá blautu barnsbeini

,,Sjómannadagurinn er stór dagur í mínum huga og sannkallaður hátíðisdagur. Ekki bara vegna þess að ég hafi stundað sjómennsku allan minn starfsferil, heldur einnig vegna þess að sjómennskan er nátengd fjölskyldu minni. Faðir minn og föðurafi voru báðir sjómenn og útgerðarmenn á sínum tíma og í móðurættinni voru líka sjómenn. Ég er sá eini í fjölskyldunni sem enn stunda sjómennsku en það breytir engu um hátíðleika sjómannadagsins í mínum huga,” segir Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á uppsjávarveiðiskipinu Ingunni AK, en hann hefur verið til sjós frá blautu barnsbeini.

Guðlaugur, eða Gulli eins og hann er jafnan kallaður, er fæddur í Reykjavík, ættaður frá Ánanaustum í föðurætt en svo nefnist gatan sem nú liggur á milli Hringbrautar og Mýrargötu. Móðurættin er frá Arnastapa á Snæfellsnesi og forfeður Guðlaugs þar voru bændur og sjómenn. Foreldrar Guðlaugs eru Jón Björnsson, sem nú er látinn, og Jenný Guðlaugsdóttir. Ákveðið var að ræða við Guðlaug hér á heimasíðu HB Granda í tilefni af sjómannadeginum sem haldinn verður hátíðlegur nú um helgina.

,,Ég var ekki nema 11 eða 12 ára gamall þegar ég fór fyrst á sjó en það var á síldarbátnum Hafþóri frá Reykjavík. Ég var svo á sjó á hverju sumri á ýmsum bátum fram til ársins 1967, reyndar launalaust, en þá var ég ráðinn sem fullgildur háseti á Ásbergi RE sem Ísbjörninn hf. gerði út. Ég fór í Stýrimannaskólann haustið 1970 en áður hafði ég farið nokkrar ferðir á fragtskipum. Ég kláraði farmannsprófið við skólann árið 1973 og í framhaldinu var ég stýrimaður á Helgu II RE í tvö ár og afleysingaskipstjóri á árinu 1974. Ári síðar var ég aftur kominn yfir á Ásberg RE sem stýrimaður og afleysingarskipstjóri,” segir Guðlaugur en töluverð breyting varð á hans högum á árinu 1978 er hann tók við sem skipstjóri á Dagfara ÞH sem þá var þekkt aflaskip.

Hringnum lokað

,,Ég var með Dagfara ÞH næstu sex árin eða fram til 1984 er ég var ráðinn skipstjóri á Jóni Finnssyni RE. Það starf entist þó skemur en ráð hafði verið fyrir gert því skipið var selt hálfu ári síðar. Þá fór ég í afleysingar á ýmsum skipum fram til ársins 1987 en þá tók ég við skipstjórn á Jóni Finnssyni RE. Það var nýtt uppsjávarveiðiskip sem smíðað var í Póllandi,” segir Guðlaugur en þess má geta að það skip heitir nú Faxi RE og er það gert út af HB Granda líkt og Ingunn AK sem Guðlaugur er skipstjóri á.

Önnur tímamót urðu hjá Guðlaugi á árinu 1993 þegar hann réðst til starfa hjá Miðnesi í Sandgerði.

,,Ég var á Keflvíkingi KE fyrstu árin en tók síðan við Elliða GK, sem keyptur hafði verið til landsins, árið 1996.

,,Um áramótin 1996/97 voru Miðnes og Haraldur Böðvarsson sameinuð í eitt félag en ég hélt mínu starfi sem skipstjóri á Elliða GK. Óli frá Sandgerði GK kom síðan í flotann árið 1999 og ég var með það skip í tvö ár eða þar til Ingunn AK var keypt til landsins. Þar hef ég verið skipstjóri allar götur síðan og það má að mörgu leyti segja að ég hafi lokað hringnum og komið heim þegar ákveðið var að sameina Granda hf. og Harald Böðvarsson hf. í ársbyrjun 2004. Ég hóf jú sjómennskuferilinn hjá Ísbirninum sem er eitt þeirra fyrirtækja sem eru forverar HB Granda eins og menn þekkja fyrirtækið í dag.”

Ingunn AK hefur reynst afburðavel

Það segir sig sjálft að Guðlaugur hefur orðið vitni að miklum breytingum og tækniframförum á þeim tíma sem hann hefur verið til sjós. Hann segir að helsta breytingin frá því að hann var að stíga sín fyrstu skref sem stýrimaður og skipstjóri sé sú að skipin séu nú mun stærri og burðarmeiri en áður var og sömuleiðis hafi öll aðstaða um borð í þeim batnað til muna.

,,Burðargeta skipanna nú er margfalt meiri en áður var og allur búnaður miklu betri. Það hafa orðið gríðarlegar tækniframfarir og fiskleitar- og fjarskiptatækin sem við notuðumst við hér áður fyrr þættu ekki merkileg í dag. Veiðitækninni hefur sömuleiðis fleygt mikið fram. Það urðu miklar breytingar þegar við fórum að nota troll við síld- og loðnuveiðar árið 1996 og síðan þá höfum við jöfnum höndum veitt þessar tegundir í troll og nót. Kolmunna veiðum við hins vegar alfarið í troll. Ég byrjaði á kolmunnaveiðunum árið 1998 á Elliða GK en síðan var ég með Óla í Sandgerði GK á þeim veiðum og loks Ingunni AK. Allt voru þetta skemmtileg skip, hvert á sinn hátt. Óli í Sandgerði var hraðskreitt skip og vel hannað til þess að koma með síld til vinnslu og Ingunn hefur reynst afburða vel allt frá því að skipið kom til landsins. Eftir á að hyggja var trúlega mesta breytingin fyrir mig að taka við Jóni Finnssyni RE sem kom nýr til landsins frá Póllandi. Koma hans markaði ákveðin tímamót í uppsjávarveiðum hér á landi. Þetta var fyrsta nótaskipið sem Íslendingar höfðu látið smíða fyrir sig um alllangt skeið og upphafið á þeirri endurnýjunarbylgju sem varð á tog- og nótaskipaflotanum næstu árin á eftir.”

Betri aðbúnaður og minni útiverur

Að sögn Guðlaugs hefur aðbúnaður skipverja um borð í tog- og nótaskipum landsmanna tekið algjörum stakkaskiptum til hins betra á síðustu tveimur áratugum eða svo.

,,Aðbúnaðurinn um borð í t.d. Elliða GK var örugglega ágætur á mælikvarða þess tíma en það væri ósanngjarnt að bera hann saman við það sem við höfum í dag. Það fer miklu betur um menn og það skiptir ekki síst máli þegar langt er sótt, s.s. á kolmunnaveiðunum lengst suður í höfum og á veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum. Reyndar er það svo að það hefur dregið úr útiverunni frá því sem var á sínum tíma. Þá vorum við að síldveiðum í Norðursjónum í tvo til þrjá mánuði í senn. Á árinu 1975 fórum við til veiða við Máritaníu og var aflanum landað um borð í verksmiðjuskipið Norglobal. Ári síðar vorum við svo á loðnuveiðum við Nýfundnaland þannig að útiverurnar nú til dags eru ekki miklar í samanburði við þennan tíma.”

Guðlaugur segist hafa verið til sjós með mörgum góðum mönnum á löngum sjómannsferli en þegar hann horfi til baka þá séu það einkum tveir menn sem mótað hafi hann sem skipstjóra.

,,Þeir sem höfðu mest áhrif á mig hér áður fyrr, þegar ég var að stíga mín fyrstu skref sem skipstjórnarmaður, voru Björn bróðir minn, sem var skipstjóri á Ásbergi RE og Haukur Brynjólfsson sem var skipstjóri á Helgu II RE. Það var gott að kynnast þeim sem sjómönnum og læra af þeim og að þeirri reynslu bý ég enn þann dag í dag.”Nýjustu fréttir

Allar fréttir