FréttirSkrá á póstlista

04.06.2009

Opið hús hjá HB Granda í tilefni af Hátíð hafsins

Hátíð hafsins verður haldin í Reykjavík um næstu helgi. Þetta er í 11. skipti sem hátíðin er haldin en á árinu 1999 var ákveðið að sameina hátíðarhöld vegna sjómannadagsins í Reykjavík og svokallaðan hafnardag í veglega tveggja daga hátíð. Að þessu sinni fara hátíðarhöldin í fyrsta skipti fram vestur á Granda og einn liður í þeim er að HB Grandi verður opið hús og sjómannadagskaffi fyrir gesti og gangandi á milli kl. 14 og 17 á sjálfan sjómannadaginn.

Markmiðið með Hátíð hafsins er að varpa ljósi á menningu og menntun tengda sjávarútvegi ásamt fjölbreyttri dagskrá sem höfðar til sem flestra. Fram að þessu hefur hátíðin farið fram á Miðbakka í Reykjavíkurhöfn en í ár verða meginhátíðahöldin flutt vestur á Granda og fara fram á götunni, í Sjóminjasafninu, á bryggjunum, í ýmsum fyrirtækjum og ekki síst úti á sjó að því er fram kemur í tilkynningu frá skipuleggjendum hátíðarinnar.

Að sögn Eggerts Benedikts Guðmundssonar, forstjóra HB Granda, hafði verið ákveðið að taka þátt í dagskrá hátíðarinnar löngu áður en ljóst varð athafnasvæði félagsins yrði einn af miðpunktum hátíðarhaldanna.

,,Það kom okkur skemmtilega á óvart þegar við fréttum af þessu. Fyrir vikið eru hæg heimatökin fyrir áhugasama að heimsækja okkur í Norðurgarð og þiggja kaffi. Við hvetjum ekki síst eldri starfsmenn okkar, sem látið hafa af störfum, að líta inn og rifja upp gamla tíma. Ennfremur bendum við á að í Sjóminjasafninu  í gamla B.Ú.R. húsinu verður ókeypis aðgangur um helgina og ýmsir aðrir viðburðir verða vítt og breitt um svæðið,” segir Eggert Benedikt Guðmundsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir