FréttirSkrá á póstlista

27.05.2009

Fjórir togarar HB Granda á úthafskarfaveiðum

Fjórir af frystitogurum HB Granda hafa verið að úthafskarfaveiðum upp á síðkastið. Helga María kom inn til löndunar í morgun en Venus, Þerney og Örfirisey eru enn á miðunum. Fimmti frystitogarinn, Höfrungur III, er að veiðum á heimamiðum og hefur mest áhersla verið lögð á grálúðuveiðar nú í maí.

,,Það verður landað úr Helgu Maríu í dag og skipið fer síðan aftur til veiða í kvöld. Við erum sáttir með gang mála á úthafskarfaveiðunum þessa stundina en í ljósi reynslunnar er mikilvægt að halda vel á spilunum á meðan vel veiðist því veiðin á það til að detta fyrirvaralaust niður,” segir Birkir Hrannar Hjálmarsson, rekstrarstjóri togara HB Granda.

Að sögn Birkis er afli ísfisktogaranna einnig góður. 

,,Við erum reyndar bara með tvo ísfisktogara í rekstri þessa stundina, Ásbjörn og Ottó N. Þorláksson, þar sem ákveðið var að Sturlaugur H. Böðvarsson færi í slipp fyrr í þessum mánuði. Hann verður klár upp úr miðjum júní. Aukning þorskkvótans, sem ákveðin var í vetur, hefur bætt rekstur þessara skipa verulega, því ufsaveiðar hafa ekki gengið eins vel í vetur og vor og oft áður. Þorskurinn af ísfisktogurunum hefur allur farið í vinnslu hjá fiskiðjuveri okkar á Akranesi eftir að kvótaaukningin var gefin út.”

Nýjustu fréttir

Allar fréttir