FréttirSkrá á póstlista

18.05.2009

Mjöltankar fluttir frá Reykjavík til Vopnafjarðar

Umhverfi Reykjavíkurhafnar við Grandagarð mun taka töluverðum breytingum á næstunni því nú er unnið að undirbúningi á flutningi tíu mjöltanka, sem voru hluti fiskmjölsverksmiðju HB Granda, frá Reykjavík til Vopnafjarðar. Áður en tankarnir verða fluttir verða þeir þó hækkaðir um fjóra metra. Eftir hækkunina verða tankarnir 22 metra háir og munu þeir því í framtíðinni setja töluverðan svip á byggðina í Vopnafirði.

Fiskmjöls- og lýsisvinnslu var hætt í fiskmjölsverksmiðju HB Granda í Reykjavík í ársbyrjun 2005 en þá var brædd loðna í verksmiðjunni. Fyrirtækið starfrækir nú tvær fiskmjölsverksmiðjur á Akranesi og í Vopnafirði og í tengslum við flutninginn á mjöltönkunum til Vopnafjarðar verður ráðist í frekari framkvæmdir við verksmiðjuna á staðnum.

,,Það eru engir mjöltankar á Vopnafirði en þess í stað höfum við notast við mjölskemmu sem tekur um 1.800 tonn af mjöli í sekkjum. Auk þess höfum við leigt húsnæði sem tekur um 400 tonn af mjöli í sekkjum og við höfum síðan nýtt gamla frystigeymslu ef mikið safnast upp af mjöli en þar rúmast um 500 tonn. Þetta fyrirkomulag hefur oft verið þungt í vöfum enda vegur hver mjölsekkur um 1.500 kg,” segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda, en hann upplýsir að mjöltankarnir verði fluttir frá Reykjavík til Vopnafjarðar í júlímánuði nk. og hefur norskur flutningaprammi verið fenginn til að flytja tankana. Auk tankanna verða helstu tæki fiskmjölsverksmiðjunnar í Reykjavík flutt til Vopnafjarðar og munu þau nýtast þar í framtíðinni.

,,Mjöltankarnir eru nú 18 metra háir. Samkvæmt reglugerð þurfa að vera svokallaðar sprengilúgur á mjöltönkum sem nú eru reistir. Það var því ákveðið að hækka tankana um fjóra metra og nýta hækkunina til þess að koma lúgunum fyrir. Við þetta eykst að sjálfsögðu rýmið í tönkunum. Þeir rúma nú um 2.000 tonn af mjöli en eftir hækkunina munu þeir taka um 2.450 tonn. Tankarnir verða viðbót við mjölgeymslu okkar á Vopnafirði. Þar verður jafnframt sett upp nýtt útskipunarkerfi fyrir mjöl. Þetta verður lokað kerfi sem gerir okkur kleift að dæla mjölinu beint úr tönkunum í lestar flutningaskipa. Fram að þessu höfum við orðið flytja sekkjað mjöl á vörubílum að skipshlið, þar sem sekkirnir hafa verið hífðir um borð og mjölið losað úr þeim í lestar. Hagræðið við þessa breytingu verður því umtalsvert og auk þess verður framvegis hægt að blanda mjölið að vild með flutningi á milli tanka,” segir Vilhjálmur en að hans sögn mun Héðinn hf. annast þetta verkefni að öllu leyti fyrir HB Granda samkvæmt samningi sem gerður var sl. sumar.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir