FréttirSkrá á póstlista

07.05.2009

Vistvæn fiskmjölsframleiðsla á Vopnafirði

Mikil tímamót urðu hjá fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði í lok síðustu viku. Þá var prufukeyrður nýr rafskautaketill og framvegis verður innlend raforka notuð til þess að knýja vélar verksmiðjunnar. Kemur hún í stað svartolíu sem notuð hefur verið fram að þessu.

,,Þetta er merkilegur áfangi. Það er ekki nóg með að orkukostnaður lækki verulega við þessa breytingu, heldur mun draga gríðarlega úr losun gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu á fiskmjöli og –lýsi. Undanfarin ár hefur þurft að brenna um 3,3 milljónum lítra af svartolíu á ári til þess að keyra verksmiðjuna með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda. Nú heyrir sú losun vonandi að mestu leyti sögunni til,” segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda, í samtali við heimasíðuna. Samkvæmt upplýsingum hans er HB Grandi kaupandi að svokallaðri ótryggri raforku og fyrirtækið gæti því lent í því að þurfa að keyra verksmiðjuna með svartolíu ef mál skipast þannig að skammta þurfi raforku af einhverjum ástæðum.

 Kolmunnavinnslu lauk á Vopnafirði síðastliðinn sunnudag en tækifærið til að prufukeyra rafskautaketillinn var notað síðustu vinnsludagana. Enn gæti þó orðið einhver bið á því að framleiðsla á fiskmjöli og –lýsi með innlendum orkugjafa hefjist af krafti á Vopnafirði. Tvö af uppsjávarveiðiskipum HB Granda, Ingunn AK og Faxi RE, eru nú á tilraunaveiðum á laxsíldartegundum. Í morgun höfðu áhafnir skipanna ekki orðið varar við laxsíld í veiðanlegu magni en þá hafði verið leitað suðvestur með Reykjaneshryggnum allt suður undir 59°N. Skipin eru nú á norðurleið. Síldveiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum hefjast svo væntanlega af krafti í næsta mánuði.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir