FréttirSkrá á póstlista

04.05.2009

Löndunarhrota hjá starfsmönnum HB Granda

Það er í nógu að snúast hjá þeim starfsmönnum sem sjá um löndun úr skipum HB Granda um þessar mundir. Frystitogarar og ísfisktogarar félagsins hafa verið að tínast inn einn af öðrum síðustu dagana og von er á tveimur til viðbótar síðar í vikunni.

,,Það er kraftur í þessu og mikið að gera,” sagði Birkir Hrannar Hjálmarsson, rekstrarstjóri togara HB Granda, er rætt var við hann í morgun.

Segja má að umrædd löndunarhrota hafi hafist sl. laugardag er frystitogarinn Helga María AK kom til hafnar en síðar sama dag fylgdi ísfisktogarinn Ásbjörn RE í kjölfarið. Frystitogarinn Venus HF kom svo inn síðdegis í gær og í morgun komu ísfisktogararnir Sturlaugur H. Böðvarsson AK og Ottó N. Þorláksson RE til hafnar. Von er á frystitogaranum Örfirisey RE til Reykjavíkur á morgun og frystitogarinn Höfrungur III AK er væntanlegur nk. fimmtudag.

Nú er runninn upp sá árstími að íslensku frystiskipin fara að tygja sig til veiða á úthafskarfa. Þerney RE fór fyrst skipa HB Granda til úthafskarfaveiða á þessu sumri og í morgun var skipið statt um 130 mílur suður af 200 mílna lögsögumörkunum á Reykjaneshryggnum. Að sögn Birkis Hrannars fóru veiðarnar afar rólega af stað en bræla er nú á miðunum.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir