FréttirSkrá á póstlista

29.04.2009

Jákvæðni og bjartsýni ríkjandi á sjávarútvegssýningunni í Brussel

,,Því fer fjarri að það sé krepputónn í mönnum hér á sýningunni. Þvert á móti verðum við bara vör við mikla jákvæðni og bjartsýni. Menn hætta ekkert að borða fisk og annað sjávarfang þótt efnahagsástandið hafi versnað tímabundið,“ segir Svavar Svavarsson, markaðsstjóri HB Granda, sem staddur er á sjávarútvegssýningunni í Brussel.

Alls standa 12 starfsmenn HB Granda vaktina á sýningarbás félagsins í Brussel og að sögn Svavars hefur verið stöðugur straumur gesta á básinn frá því að sýningin hófst í gærmorgun.

,,Hingað koma auðvitað þeir sem við erum í föstum viðskiptum við en einnig hefur verið mikið um heimsóknir fulltrúa fjölmargra  annarra  fyrirtækja. Mér finnst sérstaklega áberandi að margir gestanna koma frá markaðssvæðum, sem við skilgreinum sem fjarmarkaði okkar, eins og Asíu, Suður-Evrópu og ríkjum Afríku. Svo má ekki gleyma því að það er mikill fjöldi íslenskra framleiðenda hér á sýningunni sem að sjálfsögðu heimsækja okkur á sýningarbásinn,“ segir Svavar Svavarsson.

Að sögn Svavars hafa starfsmenn HB Granda notað tækifærið á sjávarútvegssýningunni til að kynna íslenska umhverfismerkið um ábyrgar fiskveiðar fyrir erlendum kaupendum.

,,Viðbrögðin eru öll á einn veg. Kaupendur kunna vel að meta áform okkar um að fá alþjóðlega viðurkennda vottun á sjálfbærni íslenskra fiskveiða.  Í þeim tilgangi erum við eindregið hvött til að hefja öfluga kynningu á umhverfismerkinu á  okkar helstu mörkuðum. Þessu verkefni var hleypt af stokkunum á sjávarútvegssýningunni heima á Íslandi sl. haust og við erum nú að fylgja því eftir  hér úti í Brussel,” segir Svavar Svavarsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir