FréttirSkrá á póstlista

21.04.2009

Á leið til Vopnafjarðar með góðan afla

Lundey NS er nú á leiðinni til Vopnafjarðar með um 1.200 til 1.300 tonna kolmunnaafla sem fékkst í fjórum holum á um þremur sólarhringum á hinu svokallaða gráa svæði milli lögsagna Færeyja og Skotlands. Arnþór Hjörleifsson skipstjóri og áhöfn hans luku við síðasta holið um miðjan dag í gær og framundan var þá um 30 tíma sigling til Vopnafjarðar.

,,Aflinn hefur verið frekar slakur í dag og í gær en aflabrögðin voru ágæt allt fram að því,” sagði Arnþór er tíðindamaður heimasíðu HB Granda náði tali af honum um miðjan dag í gær. Að hans sögn var þá blíðuveður á miðunum, sól og logn en Lundey NS var þá stödd um 82 mílur suður af Suðurey sem er syðst Færeyja.

,,Við vorum með um 1.550 tonn í fjórum holum eftir tvo og hálfan sólarhring í veiðiferðinni á undan, þannig að það hefur dregið töluvert úr veiðinni síðustu sólarhringana. Ástandið á kolmunnanum er hins vegar svipað. Hér veiðist jafnan heldur smærri fiskur en sunnar eða á svæðinu vestur af Írlandi,” segir Arnþór en þess má geta að aflinn í veiðiferðinni fékkst á um 200 til 270 faðma dýpi.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir