FréttirSkrá á póstlista

20.04.2009

Kolmunnaveiðum skipa HB Granda að ljúka

Hratt hefur gengið á kolmunnakvóta skipa HB Granda síðustu dagana. Skipin hafa komið með 21.400 tonna afla að landi og með afla Lundeyjar NS, sem var að ljúka við síðasta holið nú um miðjan dag, má gera ráð fyrir því að heildaraflinn verði orðinn um 22.600 tonn.

,,Við eigum þá eftir um 1.600 tonn af kolmunnakvóta þessa árs en við megum einnig veiða 2.000 tonn af kvóta næsta árs og munum nýta okkur þá heimild,” segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda.

Að sögn Vilhjálms hefur kolmunnaveiðin verið góð en hún datt þó niður í gær. Segist hann telja að það sé tímabundið ástand því skip séu enn að veiðum í skosku landhelginni og kolmunninn sé að ganga norður úr henni inn í færeysku lögsöguna þar sem íslensku skipin hafa verið að veiðum.

Faxi RE kom til Vopnafjarðar sl. laugardag með 1.165 tonna afla og var landað úr skipinu í gærmorgun. Skipið er nú á leiðinni á miðin og er reiknað með því að það verði komið þangað með kvöldinu. Ingunn AK kom til Fuglafjarðar í Færeyjum í gær með 1.720 tonna afla og ætti skipið að vera komið að nýju á miðin nú síðdegis. Þetta verða síðustu kolmunnatúrar Faxa RE og Ingunnar AK á þessu ári. Vilhjálmur segir að verið sé að huga að framhaldinu en næsta verkefni skipanna verði að öllu óbreyttu veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum sem væntanlega hefjast í júnímánuði.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir