FréttirSkrá á póstlista

23.03.2009

Vel gengur að veiða kolmunnann

,,Veiðin gekk mjög vel og við vorum ekki nema um tvo sólarhringa á miðunum en það er samt mjög mikið haft fyrir þessum afla og langt að fara. Þetta var tveggja sólarhringa sigling og vegalengdin er tæplega 600 sjómílur,” segir Lárus Grímsson, skipstjóri á Lundey NS, en skipið kom til hafnar á Akranesi í gærkvöldi með 1400 til 1500 tonn af kolmunna. Aflinn fékkst á alþjóðlega hafsvæðinu djúpt suður af landinu.

Að sögn Lárusar virðist vera þokkalegasta ástand á kolmunnanum en veiðin er þó á frekar afmörkuðum og litlum blettum.

,,Þarna toga skipin í röð, öll í sömu átt og það er eins gott að fara ekki út af sporinu því að þá missir maður af fisknum. Á þessum slóðum heldur kolmunninn sig í djúpköntum og á um 250 til 300 faðma dýpi. Venjulega er betra að veiða kolmunnann í birtunni yfir daginn en núna hefur háttað svo til að veiðin hefur verið betri eftir að skyggja tekur og svo yfir nóttina,” segir Lárus en að hans sögn var ekki mjög mikið af skipum á kolmunnaslóðinni í þessari veiðiferð. Hann segir að mun færri rússnesk skip séu nú á kolmunnaveiðum en oftast áður.

Ljóst er að nóg verður að gera í fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi næstu daga því von er á Ingunni AK í dag með fullfermi af kolmunna og Faxi RE fór af miðunum í morgun, sömuleiðis með fullfermi, og er von á skipinu til Akraness á miðnætti annað kvöld. Rúmlega 11 þúsund tonn eru nú óveidd af kolmunnakvóta HB Granda á þessu ári.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir