FréttirSkrá á póstlista

18.03.2009

Mjög góður afli í kolbrjáluðu veðri

Ísfisktogarinn Sturlaugur H. Böðvarsson AK kom til hafnar í Reykjavík í morgun með um 120 tonna afla eftir um fimm daga á veiðum. Þar af voru um 80 tonn af gullkarfa en annar afli var aðallega þorskur. Gunnar Einarsson skipstjóri er ánægður með aflabrögðin, ekki síst vegna þess að hann segir að kolbrjálað veður hafi verið á karfamiðunum og fyrir vikið hafi verið erfitt að stunda veiðarnar.

,,Það er búið að vera afskaplega erfitt síðasta mánuðinn. Við byrjuðum þessa veiðiferð á Melsekknum og vorum þar í þrjá daga. Veðrið var slæmt alla þessa daga, vindhraðinn frá 20 og upp í 30 metra á sekúndu, og stundum var ekki hægt að vera að veiðum nema nokkra tíma í einu. Samt vorum við að fá upp í 25 til 30 tonn af gullkarfa á sólarhring,” segir Gunnar en að hans sögn er erfitt að meta ástandið á miðunum við aðstæður sem þessar. Þessi árstími sé yfirleitt góður á karfaveiðunum og miðað við aflabrögðin nú í snælduvitlausu veðri þá virðist ástandið á karfanum á umræddu veiðisvæði vera gott.

Eftir að hafa verið á Melsekknum í þrjá daga var ferðinni heitið til þorskveiða á Vestfjarðamiðum.

,,Við vorum að veiðum í kantinum norður af Patreksfirði og þar var blíðuveður. Ég stoppaði þar í 14 tíma og það dugði til þess að fá hátt í 40 tonn af þorski. Meðafli var ekki mikill og fyrir utan karfann og þorskinn vorum við með örfá tonn af öðrum tegundum í veiðiferðinni,” segir Gunnar en hann upplýsir að þorskurinn fyrir vestan hafi verið mjög góður og að meðalvigtin sé væntanlega um 2,3 kíló. Á heimleiðinni var svo komið við í Kolluálnum en þar var leiðinda veður, vindhraði um 17-18 m/s og lítinn afla að hafa.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir