FréttirSkrá á póstlista

16.03.2009

Um 4.000 tonn af kolmunna til bræðslu á Akranesi

Nú er verið að landa kolmunnaafla úr Faxa RE hjá fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi en skipið kom til hafnar í morgun eftir langa og stranga siglingu í mjög slæmu veðri frá kolmunnamiðunum djúpt vestur af Írlandi. Ingunn AK og Lundey NS eru nú á leið á miðin en skipin létu úr höfn í morgun.

,,Það er gott hljóð í okkur enda nóg að gera í bili,” sagði Guðmundur Hannesson, verksmiðjustjóri HB Granda á Akranesi, er rætt var við hann fyrr í dag. Að sögn Guðmundar var Ingunn AK með um 1.380 tonna kolmunnaafla og Lundey NS var með 1.225 tonn, en skipin komu til hafnar í lok síðustu viku, og áætlaður afli Faxa RE er 1.300 til 1.400 tonn. Alls eru þetta því tæplega 4.000 tonn og segist Guðmundur reikna með að aflinn dugi verksmiðjunni fram á fimmtudag eða föstudag.

,,Við getum keyrt hér í gegn 900 til 1.000 tonn af hráefni á sólarhring en þar sem það er mikill vökvi í aflanum þá keyrum við verksmiðjuna hægar eða á um 600 til 700 tonna afkastagetu til þess að ná sem bestri nýtingu á hráefninu,” segir Guðmundur en hann upplýsir að kolmunninn frá skipunum þremur sé vænn og af góðri stærð.

Um tveggja til tveggja og hálfs sólarhrings sigling er á kolmunnamiðin og það tekur skipin því um fjóra sólarhringa við bestu aðstæður að komast til og frá miðunum. Góður afli hefur verið þá daga eða tíma sólarhringsins, sem gefið hefur til veiða, en slæmt tíðarfar hefur setti mark sitt á veiðarnar alla síðustu viku.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir