FréttirSkrá á póstlista

13.03.2009

Starfsmenn HB Granda heiðraðir fyrir björgunarafrek

Tveir starfsmenn HB Granda, Eðvald Ingi Árnason og Sigurbjörn Björnsson, voru í morgun heiðraðir af félaginu fyrir björgunarafrek sem þeir unnu 8. febrúar sl. er þeir björguðu tveimur starfsmönnum Löndunar ehf. úr bráðri lífshættu í lest uppsjávarveiðiskipsins Ingunnar AK. Var tækifærið notað til að afhenda Eðvald Inga og Sigurbirni viðurkenningarnar við komu Ingunnar AK til Akraness í morgun.

Svo sem fram kom í fréttum þá misstu tveir starfsmenn Löndunar ehf. meðvitund vegna súrefnisskorts við vinnu sína í lest Ingunnar AK er verið var að landa gulldeplufarmi á Akranesi. Eðvaldi Inga, sem er vaktstjóri í fiskmjölsverksmiðju HB Granda á staðnum, og Sigurbirni, sem er vélstjóri á Ingunni AK, tókst að bjarga mönnunum úr lestinni og hafa þeir nú náð sér að fullu. Ljóst þykir að ekki mátti tæpara standa og að með snarræði sínu hafi Eðvald Ingi og Sigurbjörn bjargað lífi mannanna.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, hafa nú verið gerðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að svona nokkuð geti gerst aftur. Keyptir hafa verið súrefnismælar og þeim komið fyrir í öllum þremur uppsjávarveiðiskipum félagsins og í fiskmjölsverksmiðjunum Akranesi og Vopnafirði. Auk þess verða löndunarmenn framvegis búnir slíkum mælum og ströng fyrirmæli eru um að starfsmenn fari í ekki í tanka eða lestar án þess að athuga fyrst hvort nægt súrefni sé fyrir hendi. Gildir þá einu hvenær verið er að vinna eða hvaða fisktegund unnið er með.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir