FréttirSkrá á póstlista

12.03.2009

Á heimleið með um 3.000 tonn af kolmunna

Ingunn AK og Lundey NS eru nú á leiðinni til Akraness með samtals um 3.000 tonn af kolmunna og er reiknað með því að skipin verði komin til hafnar annað kvöld.

Samkvæmt upplýsingum frá Vilhjálmi Vilhjálmssyni, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, gerði enn eina bræluna á kolmunnamiðunum djúpt vestur af Írlandi í gærmorgun og var þá ákveðið að kalla Ingunni AK og Lundey NS heim. Ingunn AK er með um 1.500 tonna afla og Lundey NS með svipað magn. Faxi RE er enn á miðunum og er vonast til þess að veðrið gangi niður í dag þannig að hægt verði að hefja veiðar að nýju. Fyrir bræluna hafði skipið náð tveimur holum í veiðiferðinni.

Að sögn Stefáns Geirs Jónssonar, sem er skipstjóri á Lundey NS í þessari veiðiferð, var sannkallað fárviðri á heimsiglingunni í nokkra tíma í nótt.

,,Það var ekki um annað að ræða en stoppa og halda skipinu upp í veðrið. Veðrið gekk svo heldur niður undir morgun og þá tókum við stefnuna heim á leið að nýju. Það er reyndar mjög slæmt veður ennþá og mér sýnist að þessi vindstrengur nái alveg norður á 60°N. Við eigum því enn ófarnar einar 60 til 70 mílur áður en við getum vænst þess að veðrið fari að skána,“ sagði Stefán Geir en er rætt var við hann nú laust eftir hádegið var Lundey NS um 300 mílur suðaustur af Reykjanesi.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir