FréttirSkrá á póstlista

26.02.2009

Góður gangur í loðnuvinnslu á Vopnafirði

Loðnuvinnsla gengur vel á Vopnafirði. Nú er verið að frysta þar hrogn úr farmi Ingunnar AK og er reiknað með að þeirri vinnslu ljúki annað kvöld að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra.

Það eru skip HB Granda, Lundey NS, Faxi RE og Ingunn AK, sem landað hafa loðnu á Vopnafirði frá því í lok síðustu viku. Búið er að frysta um 310 tonn af loðnuhrognum úr afla Lundeyjar og Faxa og um 150 tonn af loðnuhæng. Hlutfall hrygnu í aflanum hefur verið frá um 50% og upp í rúmlega 60% og Magnús segist vera ánægður með nýtinguna. Hrognafyllingin í þeirri loðnu, sem nú er verið að vinna, er um 25%. Ekki liggur enn fyrir hve mikið tekst að frysta af hrognum úr afla Ingunnar AK og skýrist það ekki fyrr en þegar líður á morgundaginn.

Faxi RE fór frá Vopnafirði í gær og var ákveðið að láta skipið fara til loðnuleitar vestur með Norðurlandi og þaðan suður með vestanverðu landinu. Ingunn AK mun fara sömu leið þegar skipið fer frá Vopnafirði. Fréttir hafa borist af því að vart hafi orðið við loðnu út af Húnaflóa. Svokölluð vestanganga er nú talin eina von þess að framhald verði á loðnuveiðunum en ekki hefur orðið vart við nýjar loðnugöngur fyrir sunnan landið.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir