FréttirSkrá á póstlista

23.02.2009

Frysta loðnuhrognin beint af færibandinu

,,Hrognaþurrkunarvélin hefur reynst mjög vel. Hrognin eru það þurr þegar þau koma á færibandinu frá vélinni að það er strax hægt að pakka þeim og frysta í stað þess að áður þurftum við að bíða í allt að sólarhring á meðan hrognin voru að þorna,” segir Magnús Róbertsson, vinnslustjóri hjá HB Granda á Vopnafirði, en þar er nú verið að ljúka við að vinna loðnuafla sem Lundey NS kom með um helgina.

Að sögn Magnúsar hefur vinnslan á aflanum gengið ágætlega. Loðnan er flokkuð úr skipinu og hefur hrygnan farið í hrognatöku og stærsti hængurinn, um 40 stykki í kílóinu, hefur sömuleiðis verið flokkaður frá og farið í frystingu fyrir Austur-Evrópumarkað. Magnús segir lítinn vafa leika á kostum nýja hrognaþurrkunarbúnaðarins.

,,Þetta er mikil breyting. Núna vinnum við loðnuna og hrognin í pökkun og frystingu beint upp úr skipinu og gæði hráefnisins gerast því ekki meiri,” segir Magnús Róbertsson.

Von er á Faxa RE til Vopnafjarðar í kvöld með um 1000 til 1100 tonn af loðnu og fer sá afli strax í vinnslu. Ingunn AK er á miðunum norðvestur af Garðskaga og þegar tíðindamaður heimasíðunnar ræddi við Guðlaug Jónsson skipstjóra var hann búinn að taka eitt kast og kominn með um 700 til 800 tonna afla. Þar með má segja að veiðinni af hinum 15.000 tonna rannsóknakvóta, sem sjávarútvegsráðherra gaf út, sé að ljúka en auk Ingunnar AK var aðeins eitt annað skip, Álsey VE, að loðnuveiðum nú um miðjan dag.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir