FréttirSkrá á póstlista

20.02.2009

Nemendur í Grundaskóla í heimsókn

Það var líf og fjör í fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi nú í vikunni er þangað komu í heimsókn nemendur í 9. bekk Grundaskóla á Akranesi. Heimsóknin var liður í verkefninu Sjávarútvegsþema 2009 sem felst í því að nemendurnir kynna sér sjávarútveginn að fornu og nýju.

Um er að ræða árvissan viðburð í skólastarfinu.

Nemendurnir hefja þemavikuna með því að heimsækja Byggðasafn Akraness og nágrennis og skoða það undir leiðsögn safnstjóra. Heimsókn í fiskiðjuver HB Granda er einnig á dagskránni og þangað komu nemendurnir með kennurum bekkjanna. Þröstur Reynisson vinnslustjóri sá um að taka á móti hópnum og um kynningu á starfsemi fiskvinnslunnar.

Þá var farið á sjóinn til fiskveiða og bóklegt efni tengt verkefninu var tekið fyrir í skólanum. Þemavikunni lauk í gærkvöldi með samkomu í skólanum þar sem boðið var upp á skemmtiatriði og sjávarréttahlaðborð sem nemendurnir og matreiðslukennari skólans sáu um að útbúa. Auk nemenda og kennara var foreldrum nemdenda, forsvarsmönnum bæjarfélagsins, fulltrúum fyrirtækja og þingmönnum úr kjördæminu boðið til veislunnar.

Þess má geta að í tengslum við þemavikuna er gefinn út bæklingur með glæsilegum sjávarréttauppskriftum. Meðal þess, sem þar er að finna, eru uppskriftir að rifsberjasíld, keilu í rjómasinnepssósu, skelfisksalati, laxakæfu með melónujógúrtsósu, hráum saltfisk Esqurixada og steiktum karfa með pepperoní og sveppasósu svo fátt eitt sé nefnt. Bæklinginn er hægt að nálgast á netinu á meðfylgjandi tengli – Sjávarútvegsþema 2009-uppskriftir.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir