FréttirSkrá á póstlista

16.02.2009

Vakta loðnumiðin næstu dagana

Ákveðið hefur verið að vakta öll grunn við sunnanvert landið þar sem von er til að loðna gangi í einhverju magni. Enn hefur ekki tekist að mæla nægilegt magn til þess að fiskifræðingar treysti sér til að gefa út byrjunarkvóta á loðnuveiðunum. Nú er því veitt af 15.000 tonna rannsóknakvóta sem sjávarútvegsráðherra gaf út í síðustu viku.

Lundey NS var við loðnuleit í síðustu viku. Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarveiðisviðs HB Granda, fer Lundey loðnuveiða í kvöld. Um borð í skipinu verður starfsmaður frá Hafrannsóknastofnun en sá hefur síðustu daga fylgst með veiðum annarra skipa með það að markmiði að fylgjast með loðnutorfunum fyrir og eftir veiðar úr þeim. Það er gert í því skyni að finna út þéttleika loðnunnar en mikið hefur borið á milli skoðana sjómanna í þeim efnum og þess stuðuls sem Hafrannsóknastofnunin notar við mælingar sínar.

Að sögn Vilhjálms eru Faxi RE og Ingunn AK nú tilbúin til loðnurannsókna og gert er ráð fyrir því að hvort skip verji um tveimur sólarhringum í það verkefni. Hlutdeild skipa HB Granda í rannsóknakvótanum er um 2.800 tonn en í staðinn er þeim gert að skila um 6,5 sólarhringum til loðnuleitar. Á fundi LÍÚ og Hafrannsóknastofnunar í gær var ákveðið að hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson fari að lokinni núverandi yfirferð vestur kantinn til Vestmannaeyja. Þar verður skipið til taks til frekari rannsókna en loðnuskipin munu sjá um að vakta grunnin á næstunni.

,,Í fyrra var sett á loðnuveiðibann 21. febrúar en síðan voru veiðar heimilaðar að nýju 27. febrúar í kjölfar þess að loðnaganga kom upp á grunnin. Það er því allt of snemmt að blása loðnuvertíðina alfarið af,” segir Vilhjálmur en þess má geta þess að gamla Kap VE vaktar Vestfjarðarmið en komi loðnuganga þar þá er hún yfirleitt seinna á ferðinni en fyrir austan land. Það vakti athygli manna að loðna, sem gekk fyrst á grunnin og veiddist í síðustu viku, var með um 20% hrognafyllingu. Samkvæmt því er sú loðna um hálfum mánuði fyrr í þroska en í venjulegu árferði. Samkvæmt því gæti hrognataka farið að hefjast hvað úr hverju.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir