FréttirSkrá á póstlista

10.02.2009

Raunir eða raunveruleiki

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, sendi öllu starfsfólki félagsins bréf í gærkvöldi. Bréfið fer hér á eftir í heild. 

  Ágæta samstarfsfólk,

Fyrir réttum fjórum mánuðum, um þær mundir sem bankakerfi landsins var að sigla í strand, sendi ég ykkur stutt bréf. Í bréfinu lýsti ég skoðun minni á stöðu HB Granda í þeirri kreppu, sem þá var að birtast. Í niðurlagi bréfsins ítrekaði ég mikilvægi þess að tapa ekki trúnni á framtíðina og færði rök fyrir tiltekinni bjartsýni.

Síðan þá, og ekki síst á nýliðnum vikum, hafa fjölmiðlar verið nánast óþreytandi við að telja úr okkur kjarkinn. Þær úrtölur hafa ekki síst beinst að sjávarútveginum. Meðal þess, sem talið hefur verið okkur til vansa eru yfirþyrmandi skuldir, hverfandi eigið fé, ólán framvirkra samninga, tregi í sölu og mikil birgðasöfnun. Þótt ég hafi ekki upplýsingar til þess að fjalla um sjávarútveginn almennt, er fróðlegt að skoða aðeins nánar þessi atriði og virða fyrir sér hvernig þau í raun og veru snúa að HB Granda.

Skuldir

Skuldir sjávarútvegsins eru vissulega miklar, en gagnlegt er að setja þær í samhengi við aðrar rekstrarstærðir. Þar sem nánast allar skuldir HB Granda eru í erlendri mynt, er ljóst að skuldastaðan, mæld í íslenskum krónum, sveiflast beint með gengi krónunnar. Til þess að jafna áhrif gengisins er fróðlegt að skoða hlutfall skulda og tekna per mánuð. Þetta hlutfall hefur verið nokkuð stöðugt hjá HB Granda undanfarin ár. Auðvitað væri heppilegt að geta lækkað þetta hlutfall jafnt og þétt, en félagið hefur undanfarið fjárfest í auknum framleiðslutækjum, einkum á Vopnafirði, þar sem félagið er burðarásinn í atvinnulífinu. Ef félagið færði reikninga sína í evrum, myndu þessar sveiflur minnka verulega, þótt þær hyrfu ekki alveg vegna innbyrðis breytinga á milli erlendra gjaldmiðla.

Eigið fé

Þótt skuldir hækki í réttu hlutfalli við gengi erlendra gjaldmiðla, þá gildir það ekki um bókfært virði eigna, jafnvel þótt stór hluti þeirra sé í eðli sínu beint tengdur erlendri mynt. Þetta á t.d. við um skipakostinn, sem fylgir heimsmarkaðsverði, og aflaheimildir, sem draga verðmæti sitt af framtíðarvæntingum um tekjur í erlendri mynt. Ef eignirnar fylgdu gengi erlendra gjaldmiðla myndu þær sveiflast á svipaðan hátt og skuldirnar. Mismunur eigna og skulda, þ.e. eigið fé, myndi þá sveiflast í takt, en ekki rýrna óeðlilega við veikingu krónunnar eins og nú er raunin. Reyndar hefur bókfært eigið fé HB Granda aldrei orðið neikvætt, þrátt fyrir þessi áhrif gengisveikingarinnar, þótt vissulega hafi það minnkað. Ef bækur væru færðar í erlendri mynt, myndu þessi áhrif nánast hverfa.

Framvirkir samningar

HB Grandi hefur undanfarin ár gert framvirka gjaldeyrissamninga í því skyni að draga úr sveiflum í sjóðstreymi félagsins. Þessir samningar voru þannig hugsaðir, að spá var gerð um nettó innstreymi erlends gjaldeyris nokkra mánuði fram í tímann. Með nettó innstreymi er átt við inngreiðslur frá erlendum kaupendum okkar afurða, að frádregnum þeim gjöldum, sem við þurfum að greiða í erlendri mynt, s.s. olíukostnað, vexti og afborganir af erlendum lánum. Síðan var samið við banka um sölu á hluta af þessu nettóinnstreymi. Þetta þýddi að ef krónan styrktist og við fengum færri krónur fyrir okkar erlendu tekjur, þá drógu framvirku samningarnir úr högginu og við fengum reiknaðan hagnað á samningana, líkt og tryggingafé, sem greitt er við tjón. Veiktist krónan, þá fengum við fleiri krónur í kassann, en hluta af því greiddum við til baka vegna framvirku samninganna. Samningarnir höfðu því dempandi áhrif á sveiflur.

Í gríðarlegri veikingu krónunnar í kjölfar bankahrunsins jukust tekjur útflutningsgreinanna í krónum talið, en hluta af þessari aukningu hefðu menn við eðlilegar aðstæður átt að greiða til bankans vegna framvirkra samninga. Nú ríkja hins vegar engar eðlilegar aðstæður. Við eðlilegar aðstæður geta menn framlengt slíka framvirka samninga og jafnvel eytt þeim út með því að gera gagnstæða samninga á móti. Raunar kveða reglur á um það að verði annar aðilinn gjaldþrota, þá falli samningarnir sjálfkrafa í gjalddaga. Það eru þessar óvenjulegu aðstæður, sem valda því að sjávarútvegsfyrirtæki og fleiri aðilar hafa staðið í þjarki við skilanefndir bankanna um að semja um einhverja sanngjarna lendingu í þessu máli. M.a. hefur verið óskað eftir því að samningarnir verði gerðir upp á því gengi, sem Seðlabankinn skráði þegar bankarnir voru teknir yfir af ríkinu. Þessar viðræður hafa ennþá engum árangri skilað. Hins vegar er ljóst að HB Grandi mun standa í skilum með þessar greiðslur eins og aðrar skuldbindingar, þegar endanleg niðurstaða fæst í málin, á hvern veg sem lokaniðurstaðan verður.

Birgðir

Víðar er kreppa en á Íslandi. Erlendir kaupendur sjávarafurða hafa undanfarið nokkuð haldið að sér höndum og reynt sitt ýtrasta til þess að halda litlar birgðir. Þessa varð skýrast vart um áramót, en lág birgðastaða í áramótauppgjöri var mörgum erlendum viðskiptavinum sérstakt keppikefli. Þessi þróun ýtti undir aukið birgðahald hjá mörgum framleiðendum, sem aftur leiddi til nokkurrar lækkunar afurðaverða á ýmsum mörkuðum. Hafa þar að nokkru gengið til baka þær verðhækkanir, sem orðið hafa undanfarin misseri. Hins vegar er ekki talið að neysla á sjávarafurðum hafi dregist saman svo neinu nemi. Því til staðfestingar er þegar komið í ljós að sala hefur almennt gengið vel það sem af er nýju ári og virðast birgðir því vera að færast nálægt eðlilegu jafnvægi.

Það er ekkert nýtt að verð á sjávarafurðum sveiflist. Tímabundin birgðasöfnun er heldur ekkert nýmæli. Okkar hlutverk við þessar aðstæður er að nýta þann sveigjanleika, sem í fyrirtækinu býr, til þess að beina sjávarfanginu inn á þær vinnsluleiðir, vörutegundir og markaði, þar sem það verður að mestum verðmætum. Meira getur þurft fyrir því að hafa nú en endranær, en verkefnið er skýrt.

Fram á veg

Undanfarnar vikur hef ég ásamt markaðsfólki okkar heimsótt okkar stærstu viðskiptavini í Norður-Ameríku, Evrópu og Asíu, nú síðast í Rússlandi. Afstaða okkar kúnna er alls staðar skýr. Þeir leggja mikla áherslu á áframhaldandi gott samstarf við HB Granda og leggja metnað í að gera sem mest verðmæti úr þeim gæðavörum, sem þeir kaupa frá okkur, hvort sem er til frekari vinnslu eða til dreifingar í verslanir og á veitingastaði. Náið samstarf við viðskiptavinina er happadrýgsta leiðin til þess að stýra okkur í gegnum það öldurót, sem víða geisar.

Það er lítt arðvænlegt að velta sér upp úr því að aðstæðurnar séu á þennan veginn eða hinn. Okkar verkefni er að vinna úr þeim aðstæðum, sem heimurinn býr okkur á hverjum tíma. Ef við beinum allri orku okkar á þær brautir, verða okkur allir vegir færir.

Kær kveðja,

Eggert Benedikt

Nýjustu fréttir

Allar fréttir