FréttirSkrá á póstlista

09.02.2009

Búið að taka á móti rúmlega 5.000 tonnum af gulldeplu

Fiskmjölsverksmiðjur HB Granda hafa nú tekið á móti rúmlega 5.000 tonnum af gulldeplu það sem af er þessum mánuði. Að sögn Guðmundar Hannessonar, verksmiðjustjóra á Akranesi, hafa tæplega 4.400 tonn borist þangað til bræðslu og Lundey NS kom til Vopnafjarðar um helgina með tæplega 1.000 tonn.

Nú er verið að vinna afla úr Hoffelli SU og Faxa RE á Akranesi og síðan verður tekið til við að bræða afla sem Ingunn AK kom með nú um helgina. Að sögn Guðmundar er gulldeplan erfiðari í vinnslu en annar uppsjávarfiskur og stafar það aðallega af því hve fiskurinn er smár og hve mikill vökvi berst með honum við löndun.

,,Við eigum örugglega eftir að ná betri tökum á þessu með tímanum. Okkur vantar aðallega búnað til að forsía vökvann úr aflanum eftir að hann fer frá sjóðaranum yfir í pressurnar. Stærðin á götunum í síunum er 4 mm en hún þyrfti hugsanlega að vera allt að 8 mm þegar gulldeplan er annars vegar,” segir Guðmundur.

Vegna þess hve mikill sjór hefur borist með gulldeplunni við löndun var gerð tilraun um borð í Ingunni AK með að nota ferskvatn í tönkum í staðinn fyrir sjó. Guðmundur segir að þar sem ekki sé byrjað að vinna aflann úr skipinu eigi eftir að koma í ljós hvaða árangri tilraunin skilaði.

,,Heilt yfir hefur þó dregið úr seltumagninu í mjölinu og það er komið niður fyrir 7%. Mér skilst að áhöfnin á Faxa RE hafi notað krapaís til þess að kæla aflann í síðustu veiðiferð og það hráefni er trúlega það besta sem við höfum fengið það sem af er þessari vertíð. Sjókælibúnaður skipanna virkar ekki vegna þess hve gulldeplan er smá og þess vegna verður að treysta á að skipin séu ekki of lengi á veiðum og að kalt sé í veðri til þess að gæði aflans séu viðunandi,” segir Guðmundur Hannesson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir