FréttirSkrá á póstlista

03.02.2009

Próteinríkt mjöl og hátt lýsisinnihald

,,Mér líst ágætlega á gulldeplumjölið. Það er ágætlega próteinríkt og nýtingin í mjölvinnslunni er um 15%. Það, sem kemur manni töluvert á óvart, er hve þessi smái fiskur er feitur og nýtingin í lýsisvinnslunni er svipuð og í mjölinu eða um 15%,“ sagði Guðmundur Hannesson, verksmiðjustjóri hjá HB Granda á Akranesi, er rætt var við hann um gang mála í fiskmjölverksmiðjunni á Skaganum en þangað barst fyrsti gulldeplufarmur ársins í gær þegar Bjarni Ólafsson AK kom þangað með um 830 tonna farm.

Að sögn Guðmundar er gulldeplan mun erfiðari í vinnslu en t.d. annar uppsjávarfiskur eins og loðna, síld eða kolmunni.

,,Þessi fiskur er það smár að skipin eiga erfitt með að lensa og það er mikill sjór sem berst með aflanum í land. Það voru um 1130 rúmmetrar í kælitönkum Bjarna Ólafssonar AK en þar af var sjálfur aflinn um 830 tonn. Mismunurinn eða um 300 tonn var því sjór. Þetta veldur því að mjölið verður saltara en ella og það getur valdið því að við náum því ekki í hágæðaflokk, þótt það sé að öllu öðru leyti hið besta hráefni. Vegna vökvans reyndist sömuleiðis erfitt að pressa aflann fyrir bræðslu,“ sagði Guðmundur en að hans sögn er mjölið fínna en t.d. loðnumjölið en liturinn er svipaður.

Uppsjávarveiðiskip HB Granda eru öll að gulldepluveiðum og segir Guðmundur ráðgert að þau séu fjóra daga í veiðiferðunum. Verið er að gera tilraun með það um borð í Ingunni AK að nota ferskvatn til kælingar á aflanum í stað hefðbundinnar sjókælingar en með því móti er vonast til að dragi úr seltunni á fiskmjölinu. Áður en HB Grandaskipin koma inn er von á Júpíter ÞH með afla til Akraness og taldi Guðmundur að magnið væri svipað eða lítið eitt minna en það sem Bjarni Ólafsson AK kom með í gær. Guðmundur sagðist vonast til þess að nóg yrði að gera í fiskmjölsverksmiðjunni á næstunni því miðin væru ekki langt undan og það væri ekki talið fýsilegt að sigla langa leið með gulldepluaflann. Þetta eru töluverð umskipti frá því í fyrra en þá barst ekki loðnuafli til bræðslu á Akranesi fyrr en í lok febrúar eða um það leyti sem loðnuhrognataka hófst.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir