FréttirSkrá á póstlista

02.02.2009

Rólegt yfir gulldepluveiðunum

,,Það er tregt hjá okkur. Það var þokkaleg veiði fyrir nokkrum dögum en svo virðist sem að gulldeplan sé að færast lengra vestur. Við byrjuðum veiðarnar í Grindavíkurdjúpinu en erum núna að veiðum suður af Eldeyjarsvæðinu,“ sagði Hjalti Einarsson, fyrsti stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Faxa RE er tíðindamaður heimasíðunnar náði tali af honum nú síðdegis.

Öll þrjú uppsjávarveiðiskip HB Granda eru nú komin á gulldepluveiðar. Faxi RE kom á miðin í gær en Ingunn AK og Lundey NS hófu veiðarnar nú í morgun. Að sögn Hjalta fékk áhöfnin á Faxa RE um 70 til 80 tonna afla í gær og er rætt var við hann stóð heildaraflinn í um 150 tonnum. 12 skip voru þá að gulldepluveiðum á svipuðum slóðum og Faxi RE.

,,Við erum með loðnutroll og loðnupoka en mér virðist sem að við þurfum að vera með fínni möskva í pokanum til þess að hægt sé að ná viðunandi árangri. Svo þurfa menn auðvitað að læra betur á þessar veiðar. Mér líst út af fyrir sig ágætlega á þennan fisk en því er ekki að leyna að hann er smærri en ég átti von á,“ sagði Hjalti en að hans sögn er einungis hægt að veiða gulldepluna yfir daginn eða á meðan birtu nýtur. Ekki þýði að reyna veiðarnar á öðrum tímum sólarhringsins.

Þess má geta að nú er verið að landa úr Bjarna Ólafssyni AK á Akranesi en þangað kom skipið fyrr í dag með um 1000 til 1200 tonna gulldepluafla sem fer til vinnslu hjá fiskmjölsverksmiðju HB Granda á staðnum.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir