FréttirSkrá á póstlista

29.01.2009

Stefnan sett á gulldepluveiðar

Vegna veðurútlits á kolmunnamiðunum djúpt suður af Færeyjum hefur verið ákveðið að kalla skip HB Granda heim og eru þau nú á leiðinni til Vopnafjarðar. Stefnt er að því í framhaldinu að skipin fari til veiða á laxsíldartegundinni gulldeplu en nokkur skip hafa náð árangri á slíkum veiðum upp á síðkastið.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, er von á skipunum þremur til Vopnafjarðar á morgun. Faxi RE er með um 1150 tonna kolmunnaafla, Ingunn AK er með um 1200 tonn og Lundey NS með um 1000 tonn. Það sem af er árinu hafa skipin þrjú samtals veitt um 4.900 tonn af kolmunna syðst í færeysku lögsögunni. Heildarkvóti HB Granda á þessu ári er um 24.000 tonn.

,,Skipin fara væntanlega á gulldepluveiðar þar til loðnuveiðarnar hefjast. Talið er að nýleg loðnutroll og -pokar geti gagnast við þær veiðar og við eigum slík veiðarfæri. Síðan er nýtt sérbúið troll í smíðum hjá Hampiðjunni og það munum við nýta til veiðanna,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Á vef Wikipedia – frjálsa alfræðiritsins segir eftirfarandi um gulldepluna:

,,Gulldepla eða norræna gulldepla (fræðiheiti: Maurolicus muelleri) er lítill fiskur af silfurfiskaætt. Hún er 5-8 sm löng, silfruð að lit en bakið grænblátt og röð af ljósfærum á maganum. Gulldepla er miðsjávarfiskur sem finnst frá yfirborðinu allt að 1500 metra dýpi en er algengust á 150-250 metrum á næturnar en við 50 metra á daginn. Hún er algengust í heittempruðum sjó í Norður- og Suður-Atlantshafi þar á meðal vestast í Miðjarðarhafi og nyrst í Karíbahafi og í Suðaustur-Kyrrahafi. Hún lifir á rauðátu. Gulldepla finnst allt í kringum Ísland en hefur ekki verið nýtt í neinum mæli. Tilraunaveiðar á henni fóru fram snemma vors 2009 og aflinn var nýttur í bræðslu.“

Nýjustu fréttir

Allar fréttir