FréttirSkrá á póstlista

28.01.2009

Mikið haft fyrir kolmunnaaflanum

Öll þrjú uppsjávarveiðiskip HB Granda eru nú að kolmunnaveiðum syðst í færeysku lögsögunni eða á hinu svokallaða gráa svæði á mörkum færeysku og skosku lögsögunnar. Veður er slæmt, mikil kvika og straumur og mikið er haft fyrir aflanum að sögn Alberts Sveinssonar, skipstjóra á Faxa RE.

Faxi RE var kominn með um 950 tonna afla í þremur holum er tíðindamaður heimasíðunnar náði tali af Alberti nú upp úr hádeginu en þá var verið að toga á um 60°06´N og um 6°06´V.

,,Við vorum með um 300 tonna hol sem við kláruðum í gærkvöldi og daginn á undan var aflinn um 360 tonn. Aflinn í fyrsta holinu var svo um 300 tonn þannig að alls gera þetta um 950 tonn. Við erum að reyna að ná nokkrum tonnum í viðbót áður en haldið verður til hafnar en aðstæður eru þannig að það er á mörkunum að hægt sé að stunda veiðarnar. Vindinn hefur reyndar lægt nokkuð en það er mikill straumur og mikil kvika,“ sagði Albert en að hans sögn voru þá hin tvö skip HB Granda, Ingunn AK og Lundey NS, að veiðum í nágrenninu auk Barkar NK og Vilhelms Þorsteinssonar EA en síðast nefnda skipið kom á miðin í nótt sem leið.

,,Það var einn Rússi hér á svæðinu en hann er farinn. Færeysku skipin eru að ég held flest á síldveiðum við Noregi en við heyrðum reyndar að Jupiter væri á makrílveiðum í írsku lögsögunni,“ sagði Albert Sveinsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir